«

»

Molar um málfar og miðla 1529

Molavin skrifaði (25.07.2014): “ Hann bragðaði á hákarli og sviði og skoðaði Hallgrímskirkju áður en hann gekk niður að sjó.“ (Vísir 25.7.14). Fréttabarnið er svo stolt af þessari þekkingu sinni á eintölu sviða, að það setur fullt nafn sitt við fréttina. Kannski er nú hægt að segja að þeir, sem kvíða því að bragða íslenzkan þorramat séu haldnir „sviðsskrekk“.- Molaskrifari þakkar sendinguna. Hann spyr: Eru stjórnendur netmiðla svo metnaðarlausir að þeir eru alveg hættir að hafa eftirlit með því sem fréttabörnin skrifa? Allt er látið vaða yfir lesendur, – óskoðað, óleiðrétt,ólesið. Það liggur við að kalla megi slík vinnubrögð skipulögð skemmdarverk gegn íslenskri tungu.

 

Eru menn farnir að tala um orsakavaldinn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps jarðvísindamann um berghlaupið við Öskjuvatn.  Hver skyldi hann vera þessi orsakavaldur? Hans hefur svo sem verið getið áður.

 

KÞ benti á eftirfarandi (26.07.07.2014) á visir.is: „Í borgarstjóratíð Jóns Gnarr hafði staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, afnot af bíl borgarstjóra, öðrum borgarráðsfulltrúum ekki í vil.“

KÞ spyr: Hvað ætli þessi setning eigi að merkja? Molaskrifari er ekki viss. Vanhugsað eða óhugsað. Var hugsanlegt að Dagur hefði afnot af bílnum öðrum borgarráðsfulltrúum í vil? Merkir það að hann hefði þá leyft þeim að fljóta með, sitja í, ef hann brá sér bæjarleið í forföllum borgarstjóra?

http://www.visir.is/telja-dag-hafa-ekid-bifreid-borgarstjora-i-leyfisleysi/article/2014140729279

 

Í fréttum um hæstu skattgreiðendur töluðu ýmsir fjölmiðlar, bæði Ríkissjónvarp og Stöð tvö um útgerðarkonu í Vestmannaeyjum (25.07.2014). Molaskrifara finnst þetta vera viðlíka orð og orðskrípið þingkona,sem Kvennalistakonur komu inn í málið á sínum tíma, illu heillu. Ef Molaskrifari hefði skrifað þessa frétt hefði hann kallað konuna útgerðarmann, minnugur þess að konur eru menn samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri, eins og Bjarni heitinn Benediktsson orðaði það í snjallri þingræð fyrir um það  hálfri öld.

 

 

Í þættinum Í sjónmáli Í Ríkisútvarpinu á föstudag (25.07.2014) var talað um súkklaðiverksmiðju. Þessi framburður orðsins súkkulaði hefur til þessa verið bundinn við Útvarp Sögu. Ástæðulaust er fyrir Ríkisútvarpið að apa það eftir.

 

Í gærkveldi (28.007.2014) sýndi Ríkissjónvarpið loksins, loksins, heimildamynd  sem fallaði um  sögu liðinnar aldar, um heimsstyrjöldina 1914 til 1918. Vönduð mynd frá BBC. Takk fyrir það. En kannski veit  Ríkissjónvarpið ekki, að fleiri aðilar gera heimildamyndir en BBC. Það er  góðra gjalda vert að fá myndir þaðan, en leita mætti fanga víðar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>