Það var ágætt að fá nýja heimildamynd um hið dularfulla hvarf þotu Malaysian Airlines, flugs MH370, í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld (04.08.2014). Sárasjaldan sjást þar heimildamyndir um nýlega atburði. Á undan myndinni var sýnd dýralífsmynd frá BBC. Myndin um hvarf B-777 vélarinnar var einnig frá BBC. Einhver ætti að gauka því að innkaupastjórum í Efstaleiti, að fleiri framleiða góðar heimildamyndir en BBC.
Í texta með heimildamyndinni sem nefnd er hér að ofan var talað um að mappa flug. Var ekki átt við að kortleggja flugleið? Sögnin að mappa er ekki til í íslensku.
18 ölvunarakstrar í ár – 4 í fyrra , sagði á forsíðu mbl.is (04.08.2014). Orðið akstur er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu.
Molalesandi skrifar og vitnar í Bílablað Morgunblaðsins (05.08.2014): ,,Ekki er öllum gefið að segja vel frá og oft klúðra blaðamenn góðum sögum. Þó þetta sé ekki alveg reyndin með áhugaverða grein um akstur á hringveginum á einum tanki í bílablaði Morgunblaðsins hefði mátt gera betur. Höfundur skrifar textann án skipulagningar og virðist ekki þjáður af sjálfsgagnrýni. Sagan er illa fram sett, málfarið er slakt og villurnar margar. Hér er dæmi:
„Ekkert slíkt var gert heldur var ekið rólega af stað og ekið hvorki of hægt né of hratt sem leið lá norður
á Akureyri.
Veðrið á þessum kafla var vægast sagt ömurlegt í svona sparakstur.“
Og …
„Ég var síður en svo sátt við eyðslutölurnar á fyrsta leggnum. Auðvitað hafði óhagstæður vindblástur haft eitthvað að segja en svo gat líka vel verið að bílstjórinn hefði hreinlega ekki tamið sér almennilegan sparakstursstíl.“
Hvað finnst þér um ofangreint?” – Molaskrifari ætlar að vera spar á orðin, en honum finnst ekki mikið til um þessi skrif. Hefur þó séð það svartara!
Á mbl.is (04.08.2014) var stutt frétt með fyrirsögninni: Viðbúnaður vegna flapsavanda. Molaskrifari er næsta viss um að fjölmargir lesendur skildu hvorki fyrirsögnina né fréttina. Þannig á ekki að skrifa fréttir. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/04/vidbunadur_vegna_flapsavanda/
Molaskrifara minnir að hann hafi heyrt það sem hér er kallað flapsar kallað vængbörð, en það er sá hluti vængs á flugvél sem hægt er að hallastilla og breyta þannig loftstreymi um vænginn við flugtak og lendingu þannig að unnt er að nota styttri braut en ella væri og hafa stjórn á vélinni á minni hraða í aðflugi og lendingu. Þetta er ófullkomin skýring, enda Molaskrifari ekki mjög flugfróður.
Sjá hér skýringu á wikipedia. http://en.wikipedia.org/wiki/Flap_(aeronautics)
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar