Málblómin dafna vel á þeim mikla fjóluakri mbl.is sem kallaður er Smartland Mörtu Maríu. Þetta er frá (06.08.2014): Forbes listinn yfir hæst launuðustu leikara Hollywood vakti athygli þess að konur fá enn lægri laun en karlar … Í texta sem er samtals sjö línur eru orðin hæstlaunuðustu notuð í fimm línum! – Hæst launuðu væri alveg nóg. Fyrir nú utan að tala um að vekja athygli þess, – vekja athygli á því .
Sá sem svona skrifar ætti ekki að fá að ganga laus innan um tölvur og lyklaborð þar sem skrifað er efni er til birtingar á netinu.
Sjá: http://www.mbl.is/smartland/stars/2014/08/06/haest_launudu_leikkonur_hollywood/
Í frásögn af efni Spegilsins í Ríkisútvarpinu (06.08.2014) var sagt, að sú ákvörðun norsku konungshjónanna að senda dóttur sína í einkaskóla hefði hneykslað norsku þjóðina. Þokkalega upplýstir fréttamenn ættu að vita, að norsku konungshjónin eiga ekki börn á skólaaldri. Hér var átt við krónprinsinn og konu hans.
T.H. benti á þessa frétt á mbl.is (05.08.2014) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/05/afall_ad_upplifa_sig_bjargarlausan_4/
Í fréttinni er þetta að finna: „Þú finnur hvað fólk horfir á þig alvarlegum augum og veist að það er eitthvað mikið að. En ég var floginn í bæinn og það náðist að gera við mig.“ – Fleira mætti þarna benda á. Í millifyrirsögn segir: Fór betur en á horfði. Hefði auðvitað átt að vera: Fór betur en á horfðist.
Úr dagskrárkynningu á fésbók frá sjónvarpsstöðinni Skjá einum (06.08.2014): Tveir láta lífið í bílasprengju og grunar leynilögreglunni að kólumbískur vandræðagemsi sé á bak við verknaðinn.
Leynilögreglunni grunar! Það var og. Snillingar á Skjá einum.
Mikil fjölgun starfa í sjávarútveg, segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (07.08.2014) Hvar er gæðaeftirlitið, fréttastjóri?
Mikilfjölgun starfa í sjávarútvegi.
Sýnishorn af skrifum á Smartlandi mbl.is (05.08.2014) : Tobba segist vera búin að mastera kerfið í dag og geri þetta mjög skipulega. „Kort af outlettinu, mappa með afsláttarmiðum ,,, Morgunblaðið alltaf til fyrirmyndar um vandað málfar, eða hvað? Sjá: http://www.mbl.is/smartland/tiska/2014/08/05/kann_ad_gera_supergod_kaup_i_new_york/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar