Molavin skrifaði (07.08.2014): „Svakalegar markvörslur Hannesar í Noregi“ segir í fyrirsögn á visir.is (7.8.14). Höfundur fréttarinnar er nafngreindur og þar með upplýst um vanþekkingu hans á meðferð eintöluorða.
Í ljósi þess að í liði fréttamanna hjá 365 eru ágætlega ritfærir fréttamenn er það leitt að vanþekking annarra á móðurmálinu skuli vera svo áberandi að það rýri tiltrú almennings á fréttastofunni. Ábyrgðin liggur hjá yfirmönnum. – Molaskrifari þakkar bréfið.
KÞ sendi Molum línu (07.08.2014). Hann benti á þessa frétt á mbl.is :
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/07/neydarfundur_vegna_astands_i_irak/
Hann segir: ,,Ég man ekki eftir því að hafa lesið frétt í íslenskum miðli sem er eins fjarri því og þessi að geta talist skrifuð á íslensku”. Molaskrifari bætir við: – Stór orð, en þetta er vissulega hörmung.
Af Smartlandi svokölluðu á mbl.is (07.08.2014): Við skötuhjúin erum því orðin kindabændur og erum við með 300 kindur.
Í fyrirsögn er réttilega talað um fjárbændur.
Hundurinn beit bréfbera síðasta sumar, hádegisfréttir Ríkisútvarps (07.08.2014). Orðalagið í fyrra sumar virðist ekki lengur til í orðaforða fréttamanna af yngri kynslóðinni. Ævinlega er talað um síðasta sumar, e. last summer.
Marg umræddur ársgrundvöllur kom við sögu í fréttum Stöðvar tvö á fimmtudagskvöld (07.08.2014). Molaskrifara var snemma í sinni blaðamennskutíð kennt að forðast þetta orð í fréttaskrifum. Nú er það næsta daglegt brauð að heyra tala um ársgrundvöll, þegar miðað við eitt ár.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (07.08.2014): Átta bátum var keyrt á flutningabílum til Hólmavíkur frá Ólafsvík í morgun og fleiri eru á leiðinni. Átta bátum var keyrt! Les enginn yfir? http://www.ruv.is/frett/makrilbatum-ekid-a-bilum-til-holmavikur
Mazda slær við eigin markmiðum í Evrópu, er svolítið kjánaleg fyrirsögn á visir.is (07.08.2014). Sjá http://www.visir.is/mazda-slaer-vid-eigin-markmidum-i-evropu/article/2014140809468 Fréttin er heldur ekki mjög vel skrifuð. Annað dæmi um miður vel skrifaða frétt í sama miðli: Aukin eftirspurn eftir fílabeinum í Kína hefur valdið aukningu í veiðiþjófnaði og náttúruverndarsamtök óttast að það muni leiða til útdauða fíla. Hér hefði í samræmi við málvenju átt að tala um aukna eftirspurn, eða spurn, eftir fílabeini, – ekki fílabeinum. Sjá: http://www.visir.is/kinverskir-verkamenn-sagdi-ogna-filum-i-keniu/article/2014140809395
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar