Molavin skrifaði (12.08.2014):
,,Blaðamenn Vísis eru ófeimnir við að birta rangar og kjánalegar þýðingar í fréttum sínum og setja stoltir nafn sitt með. Í frétt um ebólufaraldur (9. ágúst) segir m.a. „Jeremy Farrar, forstjóri Wellcome-safnaðarins, segir að það sé enn mjög ólíklegt að ebólufaraldurinn muni verða að heimsfaraldri þótt íbúum Vestur-Afríku standi enn gríðarleg hætta af veirunni.“ Sjóðurinn The Wellcome Trust og stofnun hans, The Wellcome Foundation verða seint talin í hópi sértrúarsafnaða. Sjóðurinn hefur kostað vísindastarf, sem leitt hefur til mikilla framfara í læknavísindum eins og lesa má um á heimasíðunni:
Það verður varla hægt að segja að mistök hendi blaðamenn Vísis. Þau eru orðin meginregla þar og gera þennan vettvang gjörsamlega ónothæfan sem fjölmiðil.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Rafn benti á frétt á mbl.is (11.08.2014). Fyrirsögnin er:
Aftur að komast hreyfing á nýbyggingu fjósa:
Hann segir: ,,Er ekki rétt að fá betri byggingameistara, ef nýbyggingar eru farnar að skríða út um allar grundir??” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/11/hreyfing_a_nybyggingu_fjosa/
Rafn bendir einnig á þessa frétt á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/11/midaverd_a_landsleiki_haekkar_um_30_prosent/
Hann segir: ,,Í fréttinni er hækkun úr 4.000 kr í 5.500 kr sögð nema 30% og hækkun úr 2.000 kr í 2.500 kr sögð nema 20%. Samkvæmt þeim reikningi, sem tíðkaðist á mínum skólaárum eru þetta hins vegar 37,5% og 25%. Athygli vekur einnig, að þriðja hækkunin, úr 3.000 kr í 3.500 kr, er réttilega sögð um 17% (er 16,67%). Eru þetta blaðabörnin ellegar íþróttafréttamennirnir??”
Nú veit Molaskrifari ekki, en ekki er þetta góður reikningur eins og Rafn bendir á.
Molaskrifari þakkar bréfin.
Undarlegt viðtal fréttamanns Ríkissjónvarps á Austurvelli á mánudagskvöld (11.08.2014) við varaformann fjárlaganefndar. Fréttamaður lét algjörlega vera að spyrja varaformanninn um neitt sem skipti máli og vék ekki einu sinni að furðulegum ummælum hans um Landspítalann fyrir fáeinum dögum. Ágætis dæmi um kranablaðamennskuna sem nú ríður húsum íslenskra fjölmiðla.
Í Víðsjá á Rás eitt (12.08.2014) var boðað að fjallað yrði um ,,enduruppgerðir á módernískum byggingum”. Molaskrifari játar að þessi boðaða umfjöllun vakti ekki áhuga hans. Enduruppgerð?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar