Af vef Ríkisútvarpsins (16.08.2014): „En í staðinn hafa menn hér verið að rekja úr einu víginu í annað. Hver ný uppljóstrun skaðar trúverðugleika ráðherrans. …” Þetta er haft eftir Ólafi Þ. Harðarsyni prófessor. En Ólafur orðaði þetta að sjálfsögðu ekki svona. Hann sagði:: ,,En í staðinn hafa menn verið að hrekjast úr einu víginu í annað …” Sá sem skrifaði þetta upp hefur sennilega ekki þekkt orðalagið að hrekjast úr einu víginu í annað, að hopa sífellt á hæli. Þetta heyrist þó glöggt þegar hlustað er á viðtalið.
Slettusögnin að ,,tækla” ( e. tackle) mun vera úr íþróttamáli, fótboltamáli, og þýða að ná, eða reyna að ná, boltanum frá andstæðingi. Á forsíðu Morgunblaðsins á sunnudag (17.08.2014) segir í aðalfyrirsögn: ,,” Fjölskyldufaðir tæklar Inter Milan,,.Molaskrifari er væntanlega ekki einn um að skilja þetta illa. Þykist þó sæmilegur í ensku. Svona sletta á ekki erindi á forsíðu Morgunblaðsins. Inni í blaðinu (bls.44) er svo þversíðufyrirsögn: Rúnar tæklar risann frá Mílanó með bros á vör. Það er af sem áður var, þegar Morgunblaðið var til fyrirmyndar um málfar.
Á fésbók um helgina vakti Páll Bragi Kristjónsson athygli á viðtali við Þröst Helgason , dagskrárstjóra Rásar eitt í Ríkisútvarpsins sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hann kvaðst hugsi eftir lestur viðtalsins. Í setningu sem virðist tekin úr viðtalinu og birt með stærra letri (en er þó ekki bein tilvitnun) á síðunni segir: ,,Menningarblaðamennska snýst um ,,attitjúd” og hafi maður það ekki á maður ekkert erindi í hana. Lesbókin var með ,,attitjúd” í minni tíð og Rás 1 mun vera það líka.” Molaskrifari skilur þetta ekki alveg heldur. Hann er líka hugsi. Hann átti svolítil samskipti við þennan ágæta mann eftir að sá tók við Lesbók Morgunblaðsins. Afstaða hans (attitjúd?) þá kom Molaskrifara á óvart. Önnur en hann átti að venjast þaðan. en það er önnur saga.
Merkilegasta og skemmtilegasta frétt sem Molaskrifari hefur lengi séð (sérvitur kannski) var í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (19.08.2014) um ferðalag heiðagæsa sem senditæki og staðsetningartæki höfðu verið sett á. Merkilegir fuglar og vitrir. Skynugri en menn hafði órað fyrir. Hafa meira vit en margir ferðalangar! Gaman að þessu.
Heldur þótti Molaskrifara hvimleitt á hlusta á þul í Ríkisútvarpinu á laugardag og sunnudag og eftir helgina ,sem talaði með einkennilegri hrynjandi og óeðlilegum áherslum. Ekki á réttri hillu. Þulir á Rás eitt annars frábærir. Alma Ómarsdóttir sem las tíu fréttir á laugardagskvöld mundi einnig sóma sér prýðilega sem þulur. Heyra ráðamenn í útvarpinu okkar þetta ekki? Eða er þeim sama? Á fésbók hefur Molaskrifari séð að hann er ekki einn um þessa skoðun.
Molaskrifara þótti dálítið skondið að heyra frá því sagt í fréttum fyrir helgina að senn ættu íslenskir neytendur þess kost að kaupa hamingjusama (steindauða) kjúklinga. Þetta minnti skrifara svolítið á sögu sem hann heyrði úr sláturhúsi á Vesturlandi fyrir löngu. Þar háttaði þannig til að féð var rekið til slátrunar upp svolitla brekku innanhúss. Sá sem hafði það hlutverk að reka kindurnar upp brekkuna var spurður hvort ekki væri erfitt að fá þær til að fara upp þessa hallandi braut þar sem ,,böðullinn” beið. – Nei, nei. Þær venjast þessu, svaraði hann.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Engar athugasemdir
1 ping
Steindauðir en hamingjusamir skrifar:
20/08/2014 at 10:48 (UTC 0)
[…] Guðnason á bloggsíðu sinni um mola og […]