«

»

Molar um málfar og miðla 1557

 

Sennilega hafa margir sjónvarpsáhorfendur lært meira um jarðfræði og eldfjallafræði á liðinni viku, en hingað til á langri ævi, – sumir í það minnsta.

Þessu veldur meðal annars, og einna helst, þrennt að mati Molaskrifara:

Ný tækni við framsetningu flókins efnis á sjónvarpskjánum, sem hefur verið vel nýtt.

Ný mæli- og fjarskiptatækni og þá ekki síst vel búin TF SIF, sannkölluð vísindavél Landhelgisæslunnar.

Síðast en ekki síst frábærir vísindamenn okkar, vel máli farnir og þeim kostum búnir að geta sett flókið efni fram á mannamáli sem öllum er skiljanlegt. Þar koma margir við sögu en Molaskrifari freistast til að nefna þá Pál Einarsson, Magnús Tuma Guðmundsson, Harald Sigurðsson, Odd Sigurðsson og Ara Trausta Guðmundsson. Fleiri mætti sjálfsagt nefna til sögunnar. Án alls þessa skildum við minna og vissum minna Takk.

 

Sumir fréttamenn eru duglegir að staðsetja. Í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (31.08.2014) var okkur sagt, að eldgosið væri staðsett … Þarna var orðinu staðsett öldungis ofaukið. Það gaus úr sprungu í Holuhrauni.

Rafn benti á eftirfarandi á visir (29.08.2014): ,,25 þúsund tonn af makríl veidd á Neskaupsstað

Búið er að landa 25 þúsund tonnum af makríl í höfninni í Neskaupstað á þessari vertíð.

Þetta er fyrirsögn af visi.is. Það vantar alveg upplýsingar um hvort veiðarnar hafi farið fram á götum úti eða á lóðum heimamanna.

Fréttin fellur þó í áliti þegar meginmálið er lesið, en þar kemur fram, að aflanum hafi aðeins verið landað á Neskaupstað, en kann ekki veiddur þar.” Svona vinnubrögð eru að verða næsta daglegt brauð. Þakka Rafni ábendinguna. Á fréttamannsárunum lærði Molaskrifari að segja ævinlega í Neskaupstað. Séra Emil, fréttastjóri, sagði við okkur: Maður fer í kaupstað, ekki á kaupstað.

 

Það er ágætt, að næturfréttamenn (orðið sem notað var í lok sjónvarpsfrétta 28.08.2014) fréttastofu Ríkisútvarpsins skuli uppfæra fréttavef útvarpsins á nóttinni. En það er ekki nóg. Ríkisútvarpið á að segja okkur fréttir á klukkutíma fresti allan sólahringinn, líka á nóttinni. Það er útvarp. Á ekki að þurfa eldgos til.

 

Sigríður beindi athygli Molaskrifara að eftirfarandi á visir.is (29.08.2014): ,,Drapst af slysförum. – Kristín Sævarsdóttir varð vitni að dauða köngulóarinnar sem fannst í gær. Köngulóin drapst þegar samstarfskona Kristínar steig óvart ofan á hana.,,Ein hérna var að stíga niður fæti , þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði. Þá var það orðið of seint. Köngulóin drapst af slysförum; þetta var ekki morð af yfirlögðu ráði”. Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki. Köngulóin drapst af slysförum. Ekki morð af yfirlögðu ráði. Talað er um morð að yfirlögðu ráð. Fréttabörnin á visir.is láta ekki að sér hæða! Þakka ábendinguna, Sigríður.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>