Fréttatímar sjónvarpsstöðvanna í gærkveldi (29.08.2014) um eldgosið stutta á gígaröðinni í Holuhrauni voru báðir ágætir. En viðtalið í Ríkissjónvarpinu við fréttamanninn á Fjórðungsöldu bætti nákvæmlega engu við. Í bakgrunni sást ekkert nema grámi og réttlæting viðtalsins virtist aðeins vera sú að fréttamaðurinn var þarna.
Á vef Ríkisútvarpsins var talað um Skipulagðan niðritíma á ruv.is. Óboðlegt orðalag. Molavin sendi Molum línu um þetta orðalag og segir: ,,Á síðu Ríkissjónvarpsins segir frá því að hlé verði gert á Netsendingum vegna uppfærslu vélbúnaðar. Fyrirsögnin á tilkynningunni er: „Skipulagður niðritími ruv.is.“ Hvað fær þessa ágætu stofnun, sem hefur það lögboðna hlutverk að vernda móðurmálið, til þess að bulla með þessum hætti. „Downtime“ er enskt tölvumál. „Útsendingarhlé“ skilst.” Molaskrifari þakkar bréfið.
Karl Björnsson skrifaði (27.08.2014): ,,Hafa aðrir en ég tekið eftir því að það eru allir hættir að éta… þ.e. fólk er væntanlega of kurteist til að nota það orð. Núorðið borða allir, meira að segja fiskarnir –þótt ég eigi erfitt með að sjá fyrir mér borðhaldið á kafi í vatni í þungum straumi. Heyrði útundan mér einhvern þátt á Rás 1 í dag – þáttastjórnandi hafði farið á sjó með krakkahópi til að fræða um fiska hafsins. Hún talaði hvað eftir annað um hvað fiskarnir borðuðu. Ekki nóg með það, hún spurði líka sjómann, hvaða fiskur væri óborðandi…eða sagði hún óborðanlegir? Ekki viss hvort heldur var. Það þykir sennilega of ruddalegt að segja að eitthvað sé óætt.
Mér finnst sögnin að éta ekki dónaleg og í mörgum tilfellum fer betur á að segja éta, en borða.
Hvað finnst þér Eiður? Þakka þér fyrir góð skrif um málnotkun.” Eiður þakkar bréfið og sér ekkert athugavert við sögnina að éta. Lærði í árdaga svolitla þýsku: Menschen essen, Tieren fressen. Fólk borðar, dýr éta.
Af mbl.is (28.08.2014): Flugmaður fisvélar lenti í vandræðum í kvöld en vélin hlekktist á við lendingu á Þingvallavegi í Mosfellsbæ. Vélin hlekktist ekki á. Vélinni hlekktist á. http://www.mbl.is/frettir/ Að sjálfsögðu þurftu fréttabörnin á visir að nota leikskólamálið sitt og segja að vélin hefði klesst á ljósastaur. Bjarni Sigtryggsson benti á þetta á fésbók. Hér er fyrirsögnin af visir.is Fisflugvél í erfiðleikum í Mosfellsbæ – Klessti á ljósastaur
Flugmaðurinn nauðlenti á Þingvallavegi og vængur vélarinnar rakst í ljósastaur. Klessuverkið í meginmáli fréttarinnar mun þó hafa verið lagfært skömmu eftir birtingu. Einhver fullorðinn hefur rekið augun í þetta.
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1400 á fimmtudag (28.08.2014) sagði þulur frá fyrirhuguðum fundi í Ljósvetningabúð í Kaldakinn, en leiðrétti sig og sagði: Þetta á að sjálfsögðu að vera í Köldukinn. Er það svo? Það er nefnilega þannig að hvort tveggja er jafngilt. Sjá til dæmis þessa fróðlegu umfjöllun á mbl.is (05.06.2013) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/05/skridur_i_koldukinn_eda_kaldakinn/
Prýðileg hugvekja Ævars Kjartanssonar á Rás eitt í gærkveldi (29.08.2014) á undan góðum þætti Jónatans Garðarssonar, Rökkurtónum að loknum seinni fréttum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
30/08/2014 at 14:15 (UTC 0)
Rétt, rétt, Haukur. Takk.
Haukur Kristinsson skrifar:
30/08/2014 at 14:00 (UTC 0)
Eine kleine Korrektur.
Menschen essen, Tiere fressen.