«

»

Molar um málfar og miðla 1555

 

Enn og aftur mæta fréttir Ríkissjónvarpsins afgangi, verða hornreka, þegar boltaleikir eiga í hlut. Síðast á miðvikudagskvöld (27.089. 2014) þegar fréttatími sjónvarps var styttur vegna boltaleiks. – Frammistaða fréttastofu aðfaranótt föstudags (29.08.2014), – gosnóttina var með miklum ágætum,- það sem Molaskrifari heyrði. Sama er að segja um nýja morgunþáttinn Morgunútgáfuna. Ríkisútvarpið getur slegið öllum miðlum við, þegar mikið liggur við, og gerir það lang oftast.

 

Molaskrifari heldur áfram að velta því fyrir sér hver sé tilgangur þeirra, sem vilja að við kaupum BKI kaffi, með því að sýna okkur aftur og aftur (27.08.2014) sjónvarpsauglýsingu þar sem íslenski fáninn blaktir í hálfa stöng.

 

Af visir.is ((27.08.2014) ,,Líkt og Vísir greindi frá í gær missti ökumaðurinn bílinn út af veginum hægra megin með þeim afleiðingum að hann velti, lenti á hjólunum og rann aftur á bak út í sjóinn.” Bíllinn velti ekki. Bíllinn valt. http://www.visir.is/lifshaetta-a-strondum-redi-ekki-vid-bilinn/article/2014140829119

 

Komið hefur fram að þegar könnuð er hlustun á útvarp eða sjónvarpsáhorf hjá Ríkisútvarpinu eru þeir sem eldri eru en 67 ára ekki spurðir. Molaskrifari hefur grun um að meðal þeirra sem eru eldri 67 ára séu ýmsir tryggustu viðskiptavinir og velunnarar Ríkisútvarpsins. Hvernig væri að útvarpsstjóri veldi af handahófi eins og fjóra eða fimm úr þessum aldurshópi, byði þeim í molasopa í hinu nýja Maggakaffi á Markúsartorgi í Efstaleiti svo sem einu sinni í mánuði og hleraði skoðanir þeirra á dagskránni. Þetta kostaði Ríkisútvarpið nánast ekki neitt, – nema molasopann. Útvarpsstjóri yrði hinsvegar áreiðanlega margs vísari.

 

Dagskrárstjóri Ríkissjónvarps gerði grein fyrir vetrardagskrá sjónvarpsins í Síðdegisútvarpi Rásar tvö á miðvikudag (27.08.2014) Að hans sögn mun þar kenna margra grasa og sumt virðist hnýsilegt. Ekki er þó Molaskrifari viss um að allir hafi skilið, þegar dagskrárstjóri talaði um sketsþætti með pönslæn. Hann nefndi líka í framhjáhlaupi, örstutt, að væntanlegt væri einhverskonar Andraflandur um Færeyjar. Vonandi verður það ekki í sama dúr og sjálfhverfu þættirnir frá Vesturheimi. Það var heldur subbuleg dagskrárgerð. Egill Helgason fór eftir sýningu þessara hörmunga vestur um haf   til efnisöflunar. Molaskrifari lítur svo á, að það hafi í og með verið til að bæta fyrir spjöllin eftir Flandrið. Egill gerir tíu þætti. Sá fyrsti lofaði góðu. Níu eru eftir. Kannski þarf síðar að senda Egil og hans ágæta fólk til Færeyja til að bæta þar um betur. Það kemur í ljós.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>