«

»

Molar um málfar og miðla 1558

 

E.B. skrifaði Molum (30.08.2014): ,,Sæll Eiður. Ég sé æ oftar að talað er um að „taka eigið líf“, t.d. fyrirsögn á mbl.is i dag http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/29/send_heim_og_tok_eigid_lif/ Er þetta góð íslenska? Betra en að segja „framdi sjálfsmorð“?

Molaskrifara hefur aldrei þótt það gott orðalag, góð íslenska, að tala um að taka eigið líf. Það er hægt að tala um að svipta sig lífi, ráða sér bana, fyrirfara sér, fremja sjálfsmorð. Flest er skárra en að tala um að taka eigið líf, – að mati Molaskrifara. Þakka bréfið, EB.

 

 

Jóhanna benti Molaskrifari á eftirfarandi á mbl.is (30.08.2014): ,,Sig­ur­jón Jóns­son, var­a­full­trúi Fram­sókn­ar­flokks­ins í Kópa­vogi, lagði fram tveir fyr­ir­spurn­ir á fundi bæj­ar­ráðs á fimmtu­dag.” Tveir fyrirspurnir. Það var og. Helgarnar eru málblómatími á netmiðlunum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/08/30/spyr_hvort_bodsmidar_samraemist_sidareglum/

 

Guðmundur skrifaði Molum (29.08.2014): ,,Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Aldrei hef ég heyrt um að dýr séu „þunguð“ – heldur aðeins heyrt notað um kvenmenn, fyrr en nú. Ég kann þessu illa og tel þetta hráa þýðingu. Hryssur eru fylfullar, læður kettlingafullar o.s.frv,
Gerði Pandan sér upp húnfylli ? Hef þó aldrei heyrt það orð í bjarnleysinu hér. Er eitthvað annað orð tiltækt?”
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/08/29/panda_gerdi_ser_upp_thungun/

Molaskrifari þakkar Guðmundi bréfið en stendur á gati. Þungun er það þegar kona verður barnshafandi. Aldrei hefur Molaskrifari fellt sig við eða notað orðið vanfær, um barnshafandi konur. Konur eru aldrei fallegri, en þegar þær bera barn undir belti. – Það sagði Vilhjálmur heitinn Hjálmarsson einu sinni við konuna mína. Við mundum honum það bæði.

 

K.Þ. vísar (30.08.2014) á Bylgjuefni á visir.is: http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP29317

Hann spyr: ,,Voru atburðirnir krufnir eða kryfjaðir?”  Von er að spurt sé því fyrirsögnin var svona:,,Bakaríið – Hvað gerðist? Atburðir vikunnar kryfjaðir til mergjar” Þetta hlýtur að að hafa verið gagnmerkur útvarpsþáttur, – eða þannig ?

 

Norska sjónvarpið NRK2 sýndi síðastliðinn föstudag (29.08.2014) fyrstu heimildamyndina í breskum þriggja mynda flokki um Kína, China: Triumph and Turmoil. Vonandi eiga þessar myndir eftir rata á skjá Ríkissjónvarpsins okkar.

 

Illa skrifuð frétt af mbl.is (30.08.2014).  Þrisvar sinnum er notað orðskrípið fatlaðastæði. Þessi útgáfa fréttarinnar, þó slæm sé, er samt ögn skárri en sú sem fyrst var birt. Hvar er gamli Moggametnaðurinn? Horfinn? http://www.mbl.is/folk/verold/2014/08/30/madur_an_fota_ekki_nogu_fatladur/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Rétt, Kristján.

  2. Haukur Kristinsson skrifar:

    Orðalagið að taka eigið líf gæti verið komið úr þýsku, en þar er sagt; sich das Leben nehmen og er gott mál.

    En einnig úr ensku; to take his own life (end his life, commit suicide, to kill himself).

  3. Kristján skrifar:

    Mbl.is er orðið eins og „Séð og heyrt“. Fullt af fréttum af Kim Kardasian, Lindsey Lohan osfrv. Mér sýnist Smartland ráða ríkjum á þeim bænum. Svo eru alls konar greinar um vörur og bifreiðar sem eru lítið annað en dulbúnar auglýsingar.

    Útlitið er orðið mikilvægara á mbl.is en sjálft innihaldið og sama má segja um sjálft Morgunblaðið. Og líka RÚV. Margendurtekin glamorkynning á sjónvarpsdagskrá RÚV er bjánaleg. Ég hafði ímyndað mér annað og meira. Fleiri heimildamyndir eins og þú nefnir og færri matreiðsluþætti.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>