«

»

Molar um málfar og miðla 1559

 

Molavin vitnar í mbl.is: „Kven­kyns ensku­kenn­ara í borg­inni Bat­on Rou­ge í Louisi­ana í Banda­ríkj­un­um, hef­ur verið sagt upp störf­um…“ segir mbl.is (1.9.2014).Hann spyr: ,, Er orðið „kennslukona“ ekki lengur við hæfi?” – Molaskrifari þakkar bréfið. Kannski er þetta orð á bannlista Jafnréttisráðs? Hver veit? Hvað er að því að tala um kennslukonu?

 

Rafn benti á eftirfarandi á Moggavef (02.09.2014) og segir:,,Það er víðar England en í Kaupmannahöfn!”

Í mínu ungdæmi var Rendsburg bær í S-H, en ekki öfugt. Sjá : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/01/starfsmadur_skattstofu_skotinn/  ,,Starfsmaður á skatt­stofu í bæn­um Schleswig-Hol­stein í Rends­burg í Þýskalandi lést á sjúkra­húsi eft­ir að hafa verið skot­inn á skatt­stof­unni í morg­un. Þetta kem­ur fram á frétta­veit­unni The Local.

í heimildinni sem vísað er til segir: ,,A tax office worker in the Schleswig-Holstein town of Rendsburg died in hospital after being shot on Monday morning.” Sá sem þýddi er annaðhvort hroðvirkur eða ekki vel að sér í ensku. Nema hvort tveggja sé. Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna.

 

Af slysni hlustaði Molaskrifari smástund á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu á mánudagsmorgni (01.09.2014). Hlustar yfirleitt aldrei á þennan þátt, því þar er oftar en ekki framreidd ambögusúpa fyrir hlustendur. Umsjónarmenn sögðu hlustendum að tekist hefði að bjarga verðmætum jarðskjálftamæli undan hraunelfu. Hvorugt þeirra hafði fyrr heyrt orðið elfa og vissu greinilega ekkert í sinn haus. Hvaða kröfur gerir Ríkisútvarpið til þeirra sem falið er að stjórna þriggja klukkustund dagskrá í Ríkisútvarpinu fimm daga í viku ? Greinilega ekki miklar.

 

Ótrúlegt vatnsfall í Kaupmannahöfn er fréttabarnsfyrirsögn á visir.is (31.08.2014) http://www.visir.is/otrulegt-vatnsfall-i-kaupmannahofn/article/2014140839892

Fréttin er um óvenjulega mikla úrkomu í Kaupmannahöfn.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (31.08.2014) var sagt gífurleg úrkoma féll í nótt. Molaskrifari er á því að betra hefði verið að segja , til dæmis, gífurleg úrkoma var í nótt. Í sama fréttatíma var sagt, – að verðbólga hefði verið með allra besta móti!

 

Úr Morgunblaðinu (01.09.2014) ,, … framkvæmdastjóri Vísis segir að gæði fisksins hafi verið mjög góð ...” Gæðin voru góð! Ekki var það nú verra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Varla.

  2. Þórður Lárusson skrifar:

    Ætti það þá að vera enskukennslukona?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>