«

»

Molar um málfar og miðla 1560

Rafn skrifaði (02.09.2014): ,,Ég var að lesa pistil 1558 þar sem meðal annars var sagt frá Bylgjuþætti, þar sem atburðir vikunnar skyldu „kryfjaðir til mergjar“. Látið var nægja að nefna beygingu sagnarinnar. Hins var látið ógetið, að til að ná mergnum þurfti að brjóta til mergjar. Krufningin náði aðeins inn að beini.” Rétt athugað , Rafn. Þakka ábendinguna.

 

Í Kastljósi (02.09.2014) heyrði Molaskrifari ekki betur en kynnir segði að lögreglan segðist ekki geta tjáð sig um einstaka mál. Hefði fremur átt að vera,- segðist ekki geta tjáð sig um einstök mál.

 

Pjetur Haftsein Lárusson spurði á fésbók (02.09.2014): ,,Eiður, hvað segir þú um það, sem ég heyrði í fréttum Ríkisútvarpsins á mánudaginn var, „að hvergi séu fleiri háskólar á mann, en á Íslandi?“ Getur það hugsast, að það séu fleiri háskólar í landinu en 320.000? Það skyldi þó ekki vera, að réttara hefði verið að orða þetta á þann veg, að hvergi væru færri íbúar á hvern háskóla, en á Íslandi?”  Að sjálfsögðu Pjetur. Hárrétt. Klaufalegt orðalag.

 

Í tíufréttum Ríkisútvarps (03.09.2014) var talað um sigurvegara kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. ,,Sigurvegari Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs, hlýtur að launum 350.000 danskar krónur, eða um 7.5 milljónir íslenskra króna.” Sigurvegari verðlauna? Ekki þykir Molaskrifara það orðalag vera til fyrirmyndar.

 

Enn má á vef Ríkisútvarps ruv.is lesa þessa setningu: ,, Skipulagður niðritími ruv.is” Sennilega les málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins ekki vefinn. Þá hefði þessi setning ekki fengið að standa þarna óbreytt og óáreitt dögum saman.

Það var fengur að nýrri heimildamynd um Stríðsherrana í Úkraínu frá BBC Panorama sem Ríkissjónvarpið sýndi á þriðjudagskvöld ( 02.09.2014). Aðeins virðist vera að kvikna lífsmark í Efstaleiti varðandi efnisval því nú ber það við að stöku sinnum eru sýndar nýjar heimilda- og fréttaskýringamyndir eins og hér hefur svo oft verið hvatt til. Þetta hefur ekki þekkst í Ríkissjónvarpinu í mörg herrans ár. Í Vikudagskrá sem dreift er í Garðabæ og víðar kynnti að vísu allt annað sjónvarpsefni til sögunnar þetta kvöld. Ekki í fyrsta skipti, sem þar eru rangar upplýsingar um sjónvarpsdagskrána. – En takk fyrri tímabæra mynd um efni sem er efst á baugi.

Það sem af er af  þessu ári, var sagt í Spegli Ríkisútvarpsins (03.09.2104). Það sem af er þessu ári, – hefði dugað.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>