«

»

Molar um málfar og miðla 1561

 

Prýðilega fróðlegur og upplýsandi var gospistill Tryggva Aðalbjörnssonar í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (03.09.2014). Þarna var tölvutæknin vel nýtt til að skýra fyrir okkur flókin náttúrufyrirbæri.

 

Takk fyrir Nótuna 2014, uppskeruhátíð tónlistarskólanna,sem var á dagskrá Ríkisjónvarpsins á miðvikudagskvöld (03.09.2014). Það var reglulega gaman að hlusta og horfa á unga tónelska snillinga. Ekki var verra að heyra þarna verk eftir gamlan vin og skólabróður Árna Egilsson. En hversvegna var I dovregubbens hall eftir Grieg kynnt á ensku (In the Hall of the Mountain King)? Molaskrifari sá reyndar ekki betur en fleiri verk, sem ekki voru ensk, væru kynnt undir enskum titlum.

 

Hafa stjórnvöld hlúið nógu vel að þessari atvinnugrein, spurði fréttamaður Stöðvar í fréttum (03.09.2014). Hafa stjórnvöld hlúð nógu vel að þessari atvinnugrein, hefði hann betur sagt. Svo sagðist fréttamaður (tvisvar sinnum)vera staddur í Skarfsbakkahöfn. Hann var á Skarfabakka í Sundahöfn.  Þar að auki sáum við á myndinni að lystiskipið í bakgrunni hét Adventure of the Seas ekki Adventures of the Seas eins og fréttamaður sagði. Smáatriðin þurfa líka að vera í lagi. Séu þau ekki í lagi, eru fréttirnar ekki í lagi.

 

Á tuttugustu og fjórðu mínútu bar til tíðinda, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (03.09.2014). Eðlilegra hefði verið að segja: Á tuttugustu og fjórðu mínútu dró til tíðinda, eða á tuttugustu og fjórðu mínútu bar það til tíðinda að ….

 

Það var hálfundarlegt að horfa og hlusta á vandræðalegar skýringar bæjarstjórans í Kópavogi í fréttum Stöðvar tvö á Miðvikudagskvöld (03.09.2014) á boðsmiðum til bæjarfulltrúa og maka á tónleika Justins Timberlake í Kórnum í Kópavogi.

 

 

Endalausir lögguþættir og læknaþættir eru ær og kýr Ríkissjónvarpsins. Getur einhver skýrt þetta makalausa dálæti Ríkissjónvarpsins okkar á þessari tegund sjónvarpsefnis sem yfirleitt rís ekki mjög hátt eða ristir djúpt? Meinlaust að svona efni  fljóti með. En í núverandi skömmtum er þetta algjör ofrausn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>