«

»

Molar um málfar og miðla 1562

Molalesandi benti á (04.09.2014) skrif á visir.is þar sem m.a er talað um að ERFIÐA Rússum e-ð og útiloka rússneska íþróttamenn frá KEPPNUM o.fl. Molaskrifari þakkar bréfið. Til er sögnin að erfiða , í merkingunni að þræla, strita eða vinna baki brotnu. Sögnin að erfiða er ekki til í íslensku máli, svo Molaskrifari viti, í merkingunni að gera einhverjum erfitt fyrir. Það er því miður orðið ótrúlega algengt að sjá orð eins og keppni og verð notuð í fleirtölu. Fjölmiðlungar nútímans virðast fæstir hafa tilfinningu fyrir því að þessi orð eru eintöluorð.

 

Sjónvarpsstöðvar halda áfram að leggja fram sinn skerf til að spilla tungunni.  Morgunblaðinu á fimmtudag (04.09.2014) fylgdi auglýsingakálfur frá sjónvarpsstöðinni Skjá einum. Þar eru auglýstir tveir sjónvarpsþáttaflokkar með íslensk-enskum nöfnum, – Minute to Win It Ísland og The Biggest Loser Ísland. Ekki er þetta til fyrirmyndar. Einnig er auglýst eitthvað sem stöðin kallar Skjárflakk, en færi ef til vill betur á að kalla Skjáflakk og annað sem ýmist er kallað Skjárkrakkar eða Skjákrakkar. Ekki er metnaðurinn mikill  til að vanda sig á þessum bæ.

 

Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (04.09.2014): ,,Meðal annars hafi þeim borist ábendingar um að flugtæki hafi reynt að lenda nálægt gosstöðvunum til að hleypa fólki út”. Flugtæki? Var þetta ekki anaðhvort flugvél eða þyrla? Hvaða orðaleikur er þetta? http://www.ruv.is/frett/reyna-ad-stelast-inn-a-haettusvaedi

 

Hér fer á eftir niðurlag tölvupósts, sem Molaskrifara barst á fimmtudag með ósk um taka þátt  í einhverskonar könnun(04.09.2014):,, ,,..til þess að svara survey sem er með 7 spurningar. Hér er svo hrefurinn:”  Ekki mjög traustvekjandi.

 

Hagkaup auglýsir,,vandaða kuldagalla” í Fréttablaðinu (04.09.2014). Í auglýsingunni segir: ,,Styrking á hnjám og afturhluta”. Með afturhluta á flík, galla (sem hér áður fyrr  hét reyndar samfestingur) eða buxum er sennilega átt við það sem í daglegu tali er kallað rass. Er þetta ekki óþarfa tepruskapur?  Næst heyrum við væntanlega um einhvern, sem hefur farið illa að ráði sínu í fjármálum, að hann hafi ,,spilað afturhlutann úr buxunum”.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Bara svo það sé skráð; þyrla er flugvél.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>