«

»

Molar um málfar og miðla 1570

 

Ef Ríkisútvarpið er eign okkar allra, eins og margsinnis var sagt í þætti Sirrýjar á sunnudagsmorgni á Rás tvö ((14.09.2014), hversvegna ráðum við þá engu um dagskrána?

 

Ráðamenn Ríkisútvarpsins gerðu mistök, þegar þeir settu leiknar (stundum gargaðar) auglýsingar í stað síðasta lags fyrir hádegisfréttir. Öllum getur orðið á í messunni. Þeir hafa áreiðanlega ekki gert sér neina grein fyrir því hve mikla gagnrýni, hve mikla andstöðu, þetta allsendis óþarfa skemmdarverk mundi kalla fram. Þeir verða menn að meiri, ef þeir hafa kjark til að breyta þessari ákvörðun, og láta fyrra fyrirkomulag halda sér. Það var ástæðulaust með öllu að breyta því sem var í góðu lagi. Þeir eiga að sjá að sér og kippa þessu í liðinn. Það er útlátalaust fyrir Ríkisútvarpið.

 

Molaskrifari leyfir sér að halda því fram að einhverskonar hálfvitaviðtal,sem birt var í fréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (12.09.2014) hafi ekki verið fjáröflun UNICEF til framdráttar. Dagskrá sjónvarpsins þetta kvöld var helguð átaki UNICEF.

Þetta kom út eins og verið væri að ræða við vanheilan einstakling og margir sjónvarpsáhorfendur vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið og þekktu hvorki haus né hala á þessari undarlegu persónu. Var þetta fíflagangur, eða hvað? Þetta var ekki vel að verki staðið hjá fréttastofunni. Fyrri UNICEF þættir hafa verið betri. Einkanlega heyrir Molaskrifari illa látið af viðtali við biskup Íslands Og var þar ekki við biskup að sakast. Missti af viðtalinu og er því illa dómbær á málið.

 

Trausti skrifaði (13.09.2014) og benti á eftirfarandi: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/13/margra_saknad_eftir_ferjuslys/

„Skip­stjóri ferj­unn­ar missti stjórn á henni eft­ir að hafa lent á brotöldu.“
Fékk skipið þá ekki á sig brotsjó? – Jú, – það skyldi maður ætla. Þakka bréfið.

 

Af mbl.is (13.09.2014): Hundruð svo­kallaðra smágrísa sem sluppu úr haldi og ráfuðu um í lausa­gangi í borg­inni Sw­an­sea í Englandi voru tekn­ir af lífi í vik­unni. Swansea er næsta stærsta borgin í Wales. Grísir í lausagangi? Þeir voru sem sagt ekki í gír. Þeir gengu lausir. Voru ekki í lausagangi.

Dæmigerð helgarfrétt á mbl.is

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/09/13/hundrud_smagrisa_aflifadir/

 

Er kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöldum batna? Vonandi. Á laugardagskvöldið var (13.09.2014) voru sýndar tvær prýðilegar myndir, að mati Molaskrifara, Shipping News og meistaraverk Hitchcocks Psycho. Guð láti gott á vita, eins og stundum er sagt.

 

Svíar gengu til kosninga á sunnudaginn var (14.09.2014) Lofsvert er að hvorki á Stöð tvö né í Ríkisútvarpinu lokuðu kjörstaðir. Réttilega var sagt á báðum stöðum: Kjörstöðum var lokað. Húrra!

Hinsvegar var í fréttum Ríkisútvarps hvað eftir annað talað um fyrstu úrslit í kosningunum eins og Eurný Vals benti á í athugasemdum við Mola. http://www.ruv.is/frett/utlit-fyrir-stjornarskipti-i-svithjod Úrslit kosninga eru auðvitað niðurstöður kosninganna. Lokatölur.

 

Gott hjá Brodda Broddsyni að afsaka tveggja mínútna hlé á hádegisfréttum Ríkisútvarps í gær (15.09.2014) vegna klaufasskapar okkar sjálfra, eins og hann sagði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Hárrétt, Þorvaldur. Ég hef einblínt svo á lausaganginn, að aftaka grísanna fór framhjá mér!!!

  2. Þorvaldur S skrifar:

    „Hundruð svo­kallaðra smágrísa sem sluppu úr haldi og ráfuðu um í lausa­gangi í borg­inni Sw­an­sea í Englandi voru tekn­ir af lífi í vik­unni.“
    Voru hundruð teknir af lífi? Og í minni sveit var skepnum lógað en þær ekki teknar af lífi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>