«

»

Molar um málfar og miðla 1571

Það hefur stundum borið á góma hér hvernig stjórnmálamenn komast upp með það í fjölmiðlum að svara ekki því sem þeir eru spurðir um. Þetta kom átakanlega vel í ljós í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (15.09.2014).Rætt var um fjárlagafrumvarpið við fulltrúa stjórnarandstöðu og varaformann fjárlaganefndar. Varaformaðurinn var spurður: Hvenær verður hafist handa við byggingu nýs Landspítala? Eða hvernig ætlið þið að reka sjúkratryggingakerfið innan fjárlaga í ár, sem margir telja ómögulegt? – Grundvallaregla í viðtalstækni er reyndar að spyrja aldrei tveggja spurninga í senn. Þá velur viðmælandi þá þægilegri og spyrill gleymir venjulega hinni spurningunni.

Varaformaður fjárlaganefndar bar það ekki við að svara þessum spurningum og spyrill gerði enga athugasemd. Varaformaðurinn notaði það sem við Ómar Ragnarsson höfum kallað Gunnars Thoroddsen brelluna í viðtölum.  Svona efnislega: ,,Áður en ég svara því vil ég gjarnan taka fram að …. “ og svo er fimbulfambað út og suður þangað til hin upprunalega spurning er gleymd.

Varaformaðurinn kom ekki nálægt því að svara þeim spurningum sem til hans var beint. Hann komst upp með það. Sennilega var spyrill ekkert að hlusta, eða fannst það ókurteisi að ganga eftir svari. Það var ókurteisi við hlustendur að svara ekki. Varaformaðurinn reyndi það ekki, en flutti þess í stað fyrirlestur um forvarnarnmál.

Hér er þátturinn. http://www.ruv.is/sarpurinn/morgunutgafan/15092014-0 Spurningin og ekki svarið er á 95:10.

Ömurleg vinnubrögð af allra hálfu, sem þarna komun við sögu.

 

Prýðilegur og upplýsandi þáttur Boga Ágústssonar  og Karls Sigtryggssonar frá  Skotlandi í gærkveldi í Ríkissjónvarpi (16.09.2014) í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar á fimmtudag. Bogi talaði réttilega um Jakob konung. Það er í samræmi við hefð og íslenska málvenju. Fréttamaður Stöðvar tvö talaði um James.  En mikið lifandi ósköp var ráðherrann, Alex Salmond, illa að sér um Ísland! Ný stjórnarskrá og bankamenn í fangelsum! Einhver segir kannski: Betur að satt væri.- Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í morgun (17.09.2014) var svo rætt um Skotlandsmálin við konu, sem búin var að dveljast við nám heila tíu daga í landinu. Í sama þætti var boðað viðtal við Siggu Dögg. Sennilega heitir sú kona Sigríður Dögg.

 

Heyrði Molaskrifari rétt í tíufréttum Ríkissjónvarps (15.09.2014) að þar hefði verið talað um (fréttin var um flóttamenn á Miðjarðarhafi) að fara yfir í minni og ólekari bát? Ólekari? Bát sem var ekki eins lekur, bát sem var minna lekur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>