«

»

Molar um málfar og miðla 1572

Skrifstofa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verður staðsett í Norræna húsinu , sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (16.09.2014). Staðsett? Skrifstofan verður í Norræna húsinu. Orðinu staðsett er oftast nær ofaukið.

 

T.H. benti á þessa frétt af mbl.is /16.09.2014) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/16/husnaedid_ekki_ibudarhaeft/

Hann segir: Hér er ýmislegt athugavert, en mest um verð þykir mér þó sögnin að „olla“.

Hér er þetta svart á hvítu: ,, Kristján Kristjáns­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­bank­ans, seg­ir fyrri um­fjall­an­ir um málið hafa ollið mis­skiln­ingi þó hann megi ekki veita upp­lýs­ing­ar um mál Areks og fjöl­skyldu eins og önn­ur ein­stök mál.” – Molaskrifari þakkar T.H. ábendinguna.

 

Talað er um að taka einhvern tali, ná tali af einhverjum í merkingunni að ræða við einhvern. Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (16.09.2014) fór umsjónarmaður, eða fréttamaður, í heimsókn á hárgreiðslustofu og tók tal af konum. Þetta orðalag hefur Molaskrifari ekki heyrt áður.

 

Á sunnudagskvöldið var (14.09.2014) sýndi norska sjónvarpið NRK2 frá Gala óperuhátíð í París. Þetta voru útitónleikar og gestirnir skiptu þúsundum. Eiffelturninn í baksýn. Stórkost skemmtun fyrir alla tónlistarunnendur. Þarna komu fram ýmsir frægustu óperusöngvarar í heimi og fluttu aríur og dúetta,sem flestir þekkja. Athygli Molaskrifara var vakin á því, að eini erlendi tónlistarviðburðurinn sem Ríkissjónvarpið sýnir í beinni útsendingu er Evróvisjón dægurlagakeppnin. Skortir þó samkvæmt upplýsingum skrifara ekki á að beinar útsendingar frá tónleikum í Evrópu séu á boðstólum á vegum Evrópusambands útvarpsstöðva, EBU. Annaðhvort er ekki mikill áhugi fyrir hendi hjá yfirstjórn Ríkisútvarpsins eða búið er að eyða tiltækum fjármunum í beinar útsendingar frá boltaleikjum í útlöndum.

 

Sorglegt og hörmulegt, ef ungum stúlkum var byrluð ólyfjan á skemmtistað í Reykjavík (Ríkissjónvarpið 16.09.2014). En þetta var ekki efni í heilan Kastljóssþátt. Hreint ekki. Stundum er eins og eðlilegt efnismat bresti. Þessu hefði mátt gera skil í stuttu viðtali og viðtali við lyfja- og eiturefnafræðing, en hjá honum kom fram hve stóran þátt áfengi yfirleitt á í svona málum. En hversvegna í ósköpunum var ekki farið með neina af þessum þremur konum á bráðamóttökuna og sýni tekin til rannsóknar? Fleiri en Molaskrifari undrast það sjálfsagt eftir að hafa hlustað á hrikalegar lýsingar. Þetta var ekki beittur þáttur eins og auglýst er. Miklu fremur langloka. Misráðin efnistök í oft annars góðu Kastljósi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>