«

»

Molar um málfar og miðla 1573

 

Hvað gerðist hjá Ríkissjónvarpinu? Hversvegna var hætt við  áður boðaða útsendingu skoska kosningasjónvarpsins, skyndilega og skýringalaust? Molaskrifari heyrði af sigri sambandssinna á BBC World Service á fimmta tímanum í nótt (19.09.2014) – þökk sé Vódafón á Íslandi og heyrði og sá Salmond ráðherra nokkru seinna viðurkenna ósigur, – þökk sé færeyska sjónvarpinu. Hversvegna bregst  þjónusta Ríkissjónvarpsins? – Annars var gott viðtal við Stefán Pálsson sagnfræðing í seinni fréttum sjónvarps í gær og ágæt samantekt Veru Illugadóttur í morgunfréttum. En þetta var hvergi nærri nóg. Þessar kosningar voru sögulegur stórviðburður, sem Ríkisútvarpinu bar skylda til að sinna betur.

 

Fjórar athugasemdir varðandi Ríkisútvarpið:

  1. Til hvers eru tvær útvarpsrásir, ef sama efninu er útvarpað, eins og nú er gert, á báðum rásunum frá klukkan hálf sjö á morgnana til klukkan níu? Réttlætingin fyrir tveimur rásum var að auka fjölbreytni útsends efnis.
  2. Hversvegna þarf svo oft að draga niður í hljóðinu þegar fluttar eru leiknar (stundum gargaðar) auglýsingar? Er hljóðstyrkurinn aukinn að skipan auglýsingastofu?
  3. Hversvegna er (að sögn útvarpsstjóra) ódýrara og hagkvæmara að blanda saman leiknum og lesnum auglýsingum? Er ekki einmitt einfaldara og ódýrara að halda þeim aðskildum?
  4. Er stefnt að því, eins og nú blasir við, að endurtaka næstum alla þætti samdægurs, sem fluttir eru á Rás eitt?

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu var nýlega sagt (17.09.2014) að ýmsir hefðu horn í síðu orðsins sviðsmynd, – í merkingunni í lýsing á því sem kunni að gerast við tilteknar aðstæður. Molaskrifari er ekki í þeirra hópi sem hafa amast við þessu orði. Þetta er ágætis orð fyrir það sem á ensku er nefnt scenario. Lýsing á stöðu eða aðstæðum sem geta skapast ef tiltekið ástand breytist til verri eða betri vegar. Fínt orð.

Áskell er hinsvegar á öðru máli um þetta: Áskell skrifaði (17.09.2014): ,,Í fréttatilkynningu frá Jarðvísindastofnun HÍ er tíundað hvað geti gerst á næstunni í Bárðarbungu. Í lok tilkynningarinnar segir að ekki sé hægt að „útiloka aðrar sviðsmyndir“. Ég vona að þetta sé í síðasta sinn sem ég sé tískuorðið „sviðsmyndir“ í frétt frá umræddri stofnun.”

Molaskrifari er hér ekki alveg sammála eins og fram kemur að ofan.– Þakka þér bréfið, Áskell.

 

Enn er verið að auka endurtekið nýtt efni á Rás eitt. Nú er farið að endurtaka hluta Morgunútgáfunnar frá sama morgni klukkan hálf sjö á kvöldin. Ætla nýir herrar í Efstaleiti alveg að eyðileggja Rás eitt? Það er engu líkara.

 

Þessi frétt var óleiðrétt á mbl.is allan miðvikudaginn (17.09.2014). Hér segir allt annað í fyrirsögn en í fréttinni sjálfri. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/09/17/84_oku_of_hratt_a_vifilsstadavegi/

84 óku of hratt á Vífilsstaðavegi segir í fyrirsögn. En fréttin hefst svona: Brot 43 öku­manna voru mynduð á Víf­ilsstaðavegi í Garðabæ í dag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>