Eftirfarandi mátti lesa m.a. á fréttavef Ríkisútvarpsins (21.09.2014):Orri frá Þúfu, einn frægasti stóðhestur landsins, er dáinn, 28 vetra gamall. Þetta var leiðrétt síðar og réttilega sagt, að hesturinn væri allur. Hann hefði verið felldur.
Það var hálf óhugnanlegt að hlusta á lýsingar í Kastljósi gærkvöldsins (22.09.2014) á rotnu kerfi mjólkuriðnaðarins, MS, á Íslandi. Samkeppnislög ná ekki nema að sára litlu leyti til greinarinnar. Byggt var á skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Ótrúlegt. Takk, Helgi Seljan. Takk Kastljós.
Síðastliðinn sunnudag (21.09.2014) var Molaskrifari að aka austan úr sveitum til borgarinnar og ætlaði að hlusta á Rás eitt á leiðinni, því eftirlætisstöðin hans í bílnum, Rondó, nær ekki nema skammt úr fyrir höfuðborgarsvæðið. Hvað skyldi hafa verið á dagskrá Rásar eitt klukkan 14 á sunnudegi? Gömul Víðsjá, endurflutt. Diskaspilarinn vann.
K.Þ. benti á frétt á frétt á visir.is (22.09.2014): „Gos muni leggja til norðausturs í dag„. Hann spyr : Var Villi viðutan á vakt í dag? – Það er ekki ósennilegt , en þetta var lagfært síðar. http://www.visir.is/gos-muni-leggja-til-nordausturs-i-dag/article/2014709229977
Í íþróttafréttum var nýlega tekið fram (19.09.2014) að Kaupmannahöfn væri í Danmörku. Allur er varinn góður.
Úr heldur illa skrifaðri frétt á visir.is (20.09.2014) : Íbúar í Holtahverfi á Ísafirði verða vatnslausir eitthvað fram eftir degi þar sem maður sem ók nauðsynlegan varahlut út á Reykjavíkurflugvöll til að hægt væri að senda varahlutinn vestur, var tekinn fyrir of hraðan akstur. – Þarf að hafa einhver orð um þetta? Í fréttinni var líka sagt um manninn sem ók of hratt: Svo varð bílstjórinn fyrir þessu ….
Enn fremur segir í fréttinni: Þá var ákveðið að varahlutnum yrði keyrt strax vestur sem tekur náttúrulega dágóða stund, … http://www.visir.is/varahlutur-nadi-ekki-i-flugvel-vestur-vegna-hradaksturs-bilstjora/article/2014140929987 Um svona skrif er eiginlega ekki margt hægt að segja.
Úr frétt á mbl.is (20.09.2014): Hann var dæmdur til 15 ára til lífstíðarfangelsis fyrir morðið auk eins til 15 ára fangelsis fyrir að hafa hindrað dómsmálið . Hindrað dómsmálið? Ekki mjög vel orðað. Stundum hefur verið talað um að tefja framgang réttvísinnar.
Valdataka auglýsingadeildar Ríkisútvarpsins,sem virðist hafa rutt dagskrárdeildum til hliðar, og vægðarlaus samkeppni á auglýsingamarkaði eru að eyðileggja Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Við verðum vitni að þessu á hverjum einasta degi. Það jaðrar við að kalla megi þetta skemmdarverk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/09/2014 at 20:43 (UTC 0)
Kærar þakkir, Jóhannes. Þetta er galið og gjörspillt kerfi.
Jóhannes L. Harðarson skrifar:
23/09/2014 at 18:40 (UTC 0)
Sæll Eiður.
Þakka þér fyrir umfjöllun þína um íslenskt mál það er sannanlega þörf á því.
Þú nefnir pistli þínum nr. 1576 þetta mikla mál Samkeppnisstofunnar á atferli MS síðustu ár og jafnvel áratugi.
Ég hef oft velt fyrir mér hvernig í ósköpunum að ASÍ, BSRB, og Neytendasamtökin hafa samþykkt þetta fyrirkomulag og taka þátt í verðlagsnefnd í vonlausum minnihluta með tvo fulltrúa í sjö manna nefnd, meðan bændasamtökin eru með hina fimm.
Hvernig má það vera bændur eru einir skráðir eigendur á fyrtækinu MS?
Er ekki fyrirtækið rekið með einokunnarréttindi, þar sem bændur eru framleiðendur og við neytendur höfum ekkert val verðum að kaupa alla mjólkurvörur frá MS.
Ég er þeirrar skoðunnar að við neytendur eigum fyrtækið til jafns við bændur eða réttar sagt fyrirtækið á að vera í eigu þjóðarinnar.
Það er nauðsyn á breyta þessu kerfi og neytendur verða að krefjast beinnar aðildar.
Margt fleira er hægt segja um þetta mál en læt þettja nægja í bili.
Kveðja,
Jóhannes Harðarson