«

»

Molar um málfar og miðla 1590

Vélarrúmið fór að fyllast af vatni sagði í fyrirsögn á mbl.is (10.10.2014). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/10/velarrumid_for_ad_fyllast_af_vatni/

Fréttin er um það, að leki kom að báti sem var að veiðum út af Melrakkasléttu, langt úti á sjó. Sjór byrjaði að streyma inn í vélarrúmið. Allt fór þetta vel og báturinn var dreginn til hafnar. Engum sögum fer af því hvaðan vatnið kom sem um er rætt í fréttinni. Þarna var nefnilega ekkert vatn.

 

Í Garðapóstinum , ,,óháðu” bæjarblaði í Garðabæ (09.10.2014), segir í fyrirsögn þar sem vitnað er í ummæli bæjarstjórans: Ákveðinn vinningskultúr. Ekki kann Molaskrifari að meta orðið vinningskultúr. En gleðjast ber með sigursælu íþróttafólki í Garðabæ, sem hefur átt mikilli velgengni að fagna að undanförnu. Það er bæjarbúum gleðiefni, – jafnvel þeim sem lítinn sem engan áhuga hafa á boltaleikjum.- Fjórir snáðar knúðu dyra hjá mér í Garðabænum í gærkvöldi (10.10.2014)og voru að selja armbönd til að safna fyrir takkaskóm. Upprennandi stjörnur. Nú er ég vel birgur af armböndum.

 

Viðtal við Magnús Geir Þórðarson , útvarpsstjóra á Stöð tvö (08.10.2014) var áfellisdómur yfir þeim sem sátu við stjórnvölinn á undan honum. Fram kom, að fjölmennar uppsagnir og aðhaldsaðgerðir hefðu ekki skilað árangri. Í viðtali í Morgunblaðinu daginn eftir kom fram að þetta hefði ekki skilað árangri vegna þess að þáttum hefði verið hent út úr dagskránni, fólk rekið og ekki gert ráð fyrir að neitt kæmi í staðinn. Slíkt ber ekki vott um mikla stjórnvisku í rekstri. Nú bíða velunnarar Ríkisútvarpsins (geta lítið annað gert) eftir því hvort það er ætlun valdhafa að valda óbætanlegum skemmdum á þessari (fram til þessa ) menningarstofnun þjóðarinnar eða limlesta hana þannig að hún verði aldrei söm. Nái ekki vopnum sínum. Vonandi sjá þeir að sér.

 

Í Spegli Ríkisútvarpsins (09.10.2014) var enn einu sinni talað um að kjósa með ályktun og kjósa gegn ályktun. Molaskrifari heldur því  fram , – eins og oft hefur raunar komið fram í Molum, – að hér hefði heldur átt að tala um að greiða atkvæði gegn ályktun og greiða atkvæði með ályktun. Því miður virðist sumum fréttamönnum um megn að hafa þetta eins og málvenja býður, – og ekki virðist málfarsráðunautur hafa skoðun á málinu. Hér lætur Ríkisútvarpið reka á reiðanum, sem er ekki gott í þessum efnum.

 

Hvað þýðir það sem sífellt er klifað á í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir að ,,fréttastofa Hraðfrétta hafi nú öðlast sjálfstæði”? Það er tönnlast á þessu á hverju kvöldi. Heyrði fíflagangurinn áður undir fréttastofuna? Í hverju er þetta sjálfstæði fólgið? Hefur verið settur nýr fréttastjóri? Var staðan auglýst?  Mikið endemis bull er þetta.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>