«

»

Molar um málfar og miðla 1591

 

Úr auglýsingu á fésbók (07.10.2014): Mary verður einnig með lykilræðuna á ráðstefnudeginum sjálfum, 5. nóvember. Orðið lykilræða sést og heyrist stundum. Hráþýðing úr ensku. Keynote speech . Umrædd Mary verður aðalræðumaður á ráðstefnunni, sem verið er að auglýsa.

 

Fyrir nokkru var það ámálgað við Morgunblaðið, að birt yrði með öðrum minningargreinum örstutt grein á ensku eftir tvo enskumælandi sendiherra á Íslandi, sem höfði verið góðir vinir hins látna. Því var hafnað og sagt að blaðið birti ekki minningargreinar á ensku. Ekkert við því að segja. Á föstudag (10.09.2014) birtist nokkuð löng dánarfregn í Morgunblaðinu, sem öll var á ensku. Hefur þarna orðið stefnubreyting hjá Mogga? Ekki ber á öðru.

 

Mikið er gott að umsjónarmenn Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu skuli nú tala um lag dagsins, – gamla dægurlagið, sem er leikið rétt fyrir  fréttir klukkan sjö. Það fer vel á því. Kærar þakkir fyrir það.

 

Rafn bendir á þessa frétt á mbl.is (10.10.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/09/vard_fyrir_byflugnaaras_og_lest/

Hann spyr: ,,Er fréttin um býflugur (samkvæmt texta) ellegar geitunga (samkvæmt mynd)??”  Í fréttinni segir meðal annars: ,,Á háa­lofti húss­ins fannst gríðarlega stórt bý­flugna­bú. Búið var 1,2 metra breitt og 1,8 m hátt. Talið er að það sé tíu ára gam­alt og að í því hafi um 800 þúsund bý­flug­ur haldið til.” Er þetta bara ekki enn eitt dæmið um slök vinnubrögð við mynda með fréttum á netinu? Sennilega.

 

Á föstudagskvöld (10.10.2014) var fréttum Ríkissjónvarpsins enn einu sinni hent út vegna fótbolta. Fótbolti frá kl. 18 25 til 20 50 , næstum tveir og hálfur tími. Aftur voru 25 mínútur um fótbolta seinna um kvöldið. Fyrr um daginn var fótbolti í tvo tíma. Sem sagt næstum fimm klukkustundabolti sama daginn! Fyrr má nú rota en dauðrota. Samt var ekki hægt að standa við auglýsta dagskrá. Hún fór úr skorðum. Hversvegna var þetta efni ekki á íþróttarásinni?   Í íslenska Ríkissjónvarpinu voru engar fréttir frá klukkan 1800 á föstudagskvöldi til klukkan 1900 á laugardagskvöldi. Evrópumet, ef ekki meira. Ekki eftirsóknarvert met.

 

– Meðan knattspyrnan réði ríkjum í Ríkissjónvarpinu þetta kvöld hringdi áhorfandi til Molaskrifara og sagðist fá hlustarverk í hvert einasta skipti, sem leiklýsendur töluðu um að spila hátt eða lágt, þegar leikurinn færi fram á láréttum velli. Þessu er hér með komið á framfæri.

 

– Margskonar góðgæti var í boði í Sjónvarpi Símans meðan fótboltafárið reið yfir  var margt gott efni í boði í Sjónvarpi Símans. Til dæmis tvær kvikmyndir með Marlon Brando í aðalhlutverki, gerðar með 18 ára millibili , On the Waterfront 1954 ( Á eyrinni, Storbyhamna á norsku) og Last Tango in Paris frá 1972. Heitið Á eyrinni situr alltaf í Molaskrifara sem frábært nafn á kvikmynd, góð þýðing. Engin reisn hefði verið yfir því að kalla myndina Stórborgarhöfn á íslensku.

 

Aftur verða sjónvarpsfréttir hornreka í kvöld (13.10.2014). Hálftíma fjas í kjölfar leiksins ætti  hinsvegar að vera á íþróttarásinni.  Til hvers er hún?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>