«

»

Molar um málfar og miðla 1593

 

K.Þ. Skrifaði (14.10.2014) og benti á þessa frétt: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/10/13/thingmadur-ohress-med-lokun-is-sidu-fullkomlega-oabyrg-nalgun/

Hann segir:

Það færist í vöxt að orðmyndin „tengdum“ sé notuð án umhugsunar …

„Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir almenning verða að hafa rétt til þess að kynna sér það sem IS-samstökin hafa fram að færa og því sé lokun heimasíðu tengdum samtökunum óábyrg.“

Sami bréfritari bendir einnig á þetta: http://www.visir.is/ekki-nota-dropbox,-facebook-eda-google/article/2014141019643

„Síðan bjóði því enga vernd fyrir persónulegum gögnum fólks sem það hleður inn.“ Hann spyr: ,,Þurfum við vörn fyrir persónulegum gögnum? “

Molaskrifari þakkar ábendingarnar.

 

Stundum er kerfið sem borgararnir verða að beygja sig undir svo yfirgengilega vitlaust að engu tali tekur. Nýleg dæmi:

1. Molaskrifari nefndi á netinu að hjá sýslumannsembættinu í Hafnarfirði er ekki hægt að greiða 1650 kr. með kreditkorti fyrir bráðabirgðaökuskírteini ( staðlað A4 blað sem tekur örfáarsekúndur að prenta). Svar: ,,Við erum innheimtustofnun og það er ekki hægt að greiða skuldir með kreditkorti”. Greiðsla fyrir bráðabirgðaökuskírteini er ekki skuldargreiðsla. Greiðslan er þjónustugjald.

2. Ökuskírteini með mynd er ekki gilt persónuskilríki til skönnunar í banka , ef gildistími þess rann úr fyrir tveimur dögum. Svar: Tölvan neitar að taka þetta gilt. Einhver snillingur í kerfinu hefur skipað tölvunni að gera þetta.

3. Fáránlegasta dæmið er að finna í fínni grein Orra Páls Ormarssonar sunnudagsmogga (12.10.2014) um afhendingu vegabréfa sem eru tilbúin til afhendingar hjá þjóðskrá. Skrifstofa þjóðskrár má ekki afhenda tilbúið vegabréf (nema gegn tíu þúsund króna aukagreiðslu) . Vegabréfið verður að senda í pósti til sýslumanns í því umdæmi þar sem vegabréfsviðtakandinn býr. Enginn virðist vita hver samdi reglurnar og enginn virðist vita hversvegna þetta er svona. ,,Tölvan segir nei”. Þetta er eiginlega svona ,,af því bara”. Málinu lokið. Er ekki tími til kominn að svolítil heilbrigð skynsemi fái að komast að, þegar tölvum er sagt fyrir verkum ?

 

Í prýðilegum Vesturfaraþætti sl. sunnudag (12.10.2014) voru okkur tvívegis sýndir spænir, matskeiðar úr horni eða beini. Spænirnir voru kallaðir skeiðar, sem auðvitað er ekki rangt. Kannski deyr orðið spónn í þessari gömlu merkingu og enginn veit lengur hvað spónamatur er eða hvað það er að missa spón úr aski sínum. Um svipaða þróun eru mýmörg dæmi. Málið okkar verður alltaf ögn fátækara, þegar gömul orð og orðtök hverfa í botnlausa glatkistu tímans.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>