«

»

Molar um málfar og miðla 1594

Molalesandi skrifaði (14.10.2014) ,,Á ruv.is stendur mánudaginn 13. október:
„Fjárhagsnefnd Eyþings lagði fram ályktun á fundinum, þar sem fram kom að áframhaldandi hallarekstur á verkefninu sé óviðunandi.
Nú séu hins vegar blikur á lofti og forsendur skapist til að halda rekstrinum áfram, að því er segir í ályktuninni.“
Þarna kemur fram nýr skilingur á orðtakinu „blikur á lofti“ – það er talið boða eitthvað jákvætt í stað hins neikvæða sem felst í orðinu blika felst: óveður, illviðri.
Af fréttinni má ráða að tillögusmiðir Eyþings hafi notað orðtakið á þennan ranga hátt, óþarfi er hins vegar að endurtaka villuna í fréttum.

Þennan sama mánudag var í hádegisfréttum Bylgjunnar talað um að „tækla“ e-bólu faraldur í Afríku. Er þetta ekki knattspyrnumál?

 

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er annað dæmið á fáeinum dögum sem nefnt hefur verið um ranga notkun orðtaksins um að blikur séu á lofti. Virðist smitandi. Þegar blikur eru á lofti eru ótíðindi eða óveður í vændum, það er hárrétt. Málfar íþróttafréttamanna smitar líka út frá sér. Þeir nota oft sögnina að tækla, um að ná boltanum frá mótherja. Molaskrifara finnst þetta heldur ljótt orð og ætti að leyfa íþróttafréttamönnum að hafa það fyrir sig. Í almennum fréttum ætti að forðast að nota það.

Veturliði Þór Stefánsson, skrifaði (14.10.2014): ,,Sæll Eiður,
Vek athygli molaskrifara á þessari óvönduðu fyrirsögn DV (og rökleysu) í viðkvæmu máli:
„Ákærð fyrir manndráp af gáleysi: Ákæruvaldið fellur frá kröfu um missi framfæranda“ http://www.dv.is/frettir/2014/10/13/akaerd-fyrir-manndrap-af-galeysi-akaeruvaldid-fellur-fra-krofu-um-missir-framfaeranda/
Hér bar að skrifa „Ákæruvaldið fellur frá bótakröfu vegna missis framfæranda“. Kærar þakkir, fyrir réttmæta ábendingu.

Rafn skrifaði (14.10.2014) og vitnaði í frétt þar sem fyrirsögnin er: Boðað til íbúðafundar vegna slæmrar stöðu bæjarsjóðs. Hann segir: ,,Hvar skyldi vera fundaaðstaða fyrir íbúðirnar?? Meginmálið talar að vísu um íbúafund, sem er öllu viðráðanlegri hlutur en íbúðafundur.

Þetta er af vef Eyjunnar.” Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

 

Nýr veitingastaður auglýsti í tölvupósti (14.10.2014): ,,Einnig erum við með gott úrval af bjór og Ale.
Tólf tegundir á krana.
Happy Hour alla daga milli 16 og 19
.” Enskuskotið. Óvandað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>