«

»

Molar um málfar og miðla 1595

Ebólan er að sigra kapphlaupið, sagði í fyrirsögn á mbl.is (15.01.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/15/ebolan_er_ad_sigra_kapphlaupid/ Það sigrar enginn kapphlaup. Það sigrar enginn keppni. Þetta ættu  þeir sem skrifa  fréttir að hafa á hreinu, hafa rétt.   Í Morgunblaðinu á miðvikudag  (15.10.2014) sagði í frétt á bls. 4: Þau Svandís, Unnur Brá, Ragnheiður og Vigdís sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Ætti að  vera: Þær Svandís, Unnur Brá, Ragnheiður og Vigdís sitja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Á bls. 13 í sama blaði segir: Fjögur ummæli voru dæmd dauð og ómerk, .. Hefði átt að vera: Fern ummæli voru dæmd dauð og ómerk,.. …  Önnur  svolítið samkynja fyrirsögn á mbl.is sama dag:  Bryndísi sárnar ummæli Brynjars. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/15/bryndisi_sarnar_ummaeli_brynjars/  Bryndísi  sárna  ummæli Brynjars, ætti þetta að vera.   Sjónvarpsmaður sendi mér þessa  athugasemd á fésbók (15.10.2014). ,,Verð  að játa að málfarið vefst svolítið fyrir mér. En sennilega er þetta ekki hrós: ,,Helgi Seljan Alþýðlegt fyrir Eiði, er að sitja af sér nokkur ár þingi; hvert hann flaut á bökum verkafólks.” Miklar kröfur eru gerðar til móðurmálskunnáttu hjá Ríksútvarpinu nú um stundir.,,Alþýðlegt  fyrir Eiði”??? ,,Sitja af sér nokkur ár á þingi ”.???. Bara skemmtilegt,segir Molaskrifari.   Af baksíðu Morgunblaðsins 16.10.2014:,, .. en Alexandra mun einmitt dvelja í 17 daga  í Kína.” Molaskrifari  lærði það nokkuð snemma í blaðamennsku að  sögnin að dvelja þýðir að tefja, hindra eða  draga á langinn.   Hvað dvelur  Orminn langa?     Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um  að dveljast,  – að  vera staddur eða hafast við einhversstaðar.   Næstu Molar á mánudag.     Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Eirný.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Sæll,
    Nú er langt síðan ég hef skotið að þér mola.
    Í morgun las ég frétt á vef Morgunblaðsins og skemmti mér.

    sölu­kona KYNNTI FÓLK FYRIR rúss­nesku elgskjöti – þar hló ég, voru elgirnir lifandi, hvers vegna var verið að kynna fólkið?

    skel­fisk­ur hef­ur þurft að hverfa frá Rússlandi – ég skemmti mér og sá skelfisk yfirgefa landið, myndrænt

    Tók af vef mbl.is kl. 13.12 laugardaginn 18. október.

    http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/10/17/raudrofusupa_elgskjot_og_ponnukokur/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>