«

»

Molar um málfar og miðla 1596

Molavin sendi eftirfarandi : „…í svari við fyrirspurn Silju Dögg Gunnarsdóttur, þingmanni…“ – Svo sagði orðrétt í fimmfréttum Ríkisútvarpsins í gær, (15.10.2014) þegar fjallað var um þingstörf, líkt og heyra má í upptöku á vefsíðu. Það er varla lengur við „fréttabörn“ að sakast þegar hvorki vaktstjóri, fréttastjóri né málfarsráðunautur telja ástæðu til þess að fylgjast með færni fréttamanna og fréttaþula í meðferð móðurmálsins. Eignarfallsmynd nafnsins og nafnorðsins dögg er “daggar” (sbr. daggardropi) og þingmaður er “þingmann” í eignarfalli. Kæruleysi og fúsk eiga ekki við hjá stofnun, sem nýtur enn þeirrar virðingar landsmanna að vera talin hafa það hlutverk að vera brjóstvörn móðurmálsins. – Molaskrifari þakkar þessa þörfu ádrepu.

 

Af mbl.is (17.10.2014) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/17/stal_og_klessti_bil_bjargvaettar_sins/

Í fréttinni segir: ,,…en bíl­stjór­inn sem hann kom til bjarg­ar stal og klessti bíl hans, sem hann hafði lagt skammt frá”. Sjálfsagt er þetta nú orðið viðtekið orðalag um að skemma eða beygla bíl. Og skömminni skárra en að tala um að klessa á, -sem stundum hefur verið kallað leikskólamál í þessum Molum.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (19.10.2014) heyrði Molaskrifar ekki betur en talað væri um óreiðarlögreglu. Rétt hefði verið að tala um óeirðalögreglu. Í sama fréttatíma var sagt að búast mætti við hálkumyndun. Var ekki búist við hálku?

 

Beðið skal með að segja margt um fyrsta þáttinn í þáttaröðinni Óskalög þjóðarinnar sem Ríkissjónvarpið sýndi á laugardagskvöld. Óþarft var að sletta á okkur ensku um ,,breaking news”, þegar lesið var upp úr gömlu dagblaðið.

Og ekki var betra að heyra stjórnendur velta vöngum yfir því hvort dægurlagasöngvarinn góðkunni Haukur Morthens sem lengi starfaði sem stefnuvottur , hefði verið einhverskonar handrukkari!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Sigurður. Mér finnst þetta ekki mjög gott og byggi þá skoðunum á málkennd minni !!!!!

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Valgeir.

  3. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Lengi hefur mig grunað, Eiður, að sum „fréttabörnin“ okkar væru komin vel af barnsaldrinum!

    PS/Kærar þakkir fyrir þína góðu og þörfu Mola.

  4. Sigurður Karlsson skrifar:

    Sæll Eiður.
    Þú hefur verið óþreytandi við að gagnrýna það þegar sagt er að verslanir og fleira álíka opnar í stað þess að vera opnað og spyrð hvað viðkomandi hafi opnað. Kannski hefur þetta nöldur borið einhvern árangur því á fréttavef RÚV segir í morgun að Hvalfjarðargöng verði opnuð en ekki að þau opni neitt.

    En hvað þykir þér þá um allt sem farið er að byggja í seinni tíð? Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir frá „Kvikmynd sem byggir að miklu leyti á líkfundarmálinu í Neskaupstað“. Í nánari umfjöllun á bls. 2 segir reyndar, bæði í undirfyrirsögn og meginmáli, að það sé söguþráðurinn sem byggi á þessu máli, svo maður veit ekki almennilega hver byggingameistarinn er í þessu tilfelli.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>