Áskell skrifaði (28.10,.2014): ,,Í frétt á mbl.is segir í upphafi að Ísland sé í „…fyrsta sæti á lista World Economic Forum líkt og undanfarin ár…“ En hvað er World Economic Forum? Ég skil orðin en þekki ekki fyrirbærið. Án efa lýsir það umtalsverðum þekkingarskorti en þá verður svo að vera. Ef ýtt er á slóð sem fylgir fréttinni flyst lesandinn yfir á síðu á ensku. Hefðir þú, Eiður, látið þessa frétt fara svona út?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/28/island_i_fyrsta_saeti_eins_og_venjulega/”
– Þakka þér línurnar, Áskell. Vonandi hefði ég haft dómgreind , eða mínir yfirmenn á sínum tíma, til að láta þetta ekki birtast svona.
Á miðvikudagsmorgni (29.10.2014) var í Ríkisútvarpinu sagt frá þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Þar tók fréttamaður þannig til orða að milli funda notaði fólk tækifærið til að mingla. Molaskrifari sótti mörg Norðurlandaráðsþing á árum áður. Bæði sem fréttamaður og seinna þingmaður. Þar blandaði hann geði við ýmsa, hitti marga og eignaðist góða vini. Hann minnist þess ekki að hafa verið að mingla eins og fréttamaður talaði um. Enda er það tiltölulega nýleg og algjörlega óþörf enskusletta í íslensku máli.
Margt er það og merkilegt sem lesa má á mbl.is. Þar var (29.10.2014) sagt frá manni sem var andlega fjarverandi. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/29/aetladi_ad_sofa_i_budinni/
Úr sama miðli sama dag: Haft er eftir talsmanni slökkviliðsins að maðurinn hafi fundist án meðvitunar og hann hafi ekki andað. Á væntanlega að vera án meðvitundar! Meðvitundarlaus.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/29/festist_a_girdingu_og_let_lifid/
Æ algengara verður að sjá orðtökum ruglað saman. Bloggari skrifaði (29.10.2014): Nú stendur Brownback uppi með sárt ennið. Venja er að tala um að sitja eftir með sárt ennið. Verða fyrir miklum vonbrigðum. Missa af einhverjum happafeng.
Fréttamenn eiga að kunna sæmileg skil á notkun forsetninga með staðanöfnum á Íslandi. Í fréttum Ríkisútvarps (30.10.2014) var sagt á Stykkishólmi. Föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Nýlega var þar einnig sagt í Höfn í Hornafirði. Málvenja er að segja á Höfn í Hornafirði.
Næstu Molar á mánudag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar