Af mbl.is (31.10.2014): ,, Fertugur Kínverji, sem tók barn úr vagni á bílastæði og henti því í jörðina með þeim afleiðingum að það lét lífið á sjúkrahúsi tveimur dögum seinna …”. Molaskrifara finnst það heldur illa orðað að tala um að láta lífið á sjúkrahúsi. Betra hefði verið að segja að barnið hafi látist á sjúkrahúsi. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/31/henti_barninu_a_jordina/
Margir fréttaskrifarar eru sífellt að staðsetja hluti og atburði. Þessi frétt birtist á vef Ríkisútvarpsins (31.10.2014): http://www.ruv.is/frett/umhverfisstofnun-skodar-gasmaelakaup
Hér er talað um gasmæla sem eru staðsettir og hvar mælar verða mögulega staðsettir. Svo er talað um góð loftgæði og slæm loftgæði. Svo er fyrirsögnin: Umhverfisstofnun skoðar gasmælakaup. Þessi fréttaskrif eru ekki til fyrirmyndar. Hér hefði þurft að lesa yfir og laga.
Nýlega (28.10.2014) var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar: ,, … enda telji hver ferð xx kílómetra.” Verið var að segja frá fiskflutningum frá Djúpavogi. Ferðir telja hvorki eitt né neitt. Hér hefði til dæmis mátt segja: , – enda er hver ferð xx kílómetrar.
Landinn góður í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (02.11.2014) , – að venju. Gaman að myndunum frá Straumnesfjalli. Sömuleiðis ágætt að fá Orðbragð þeirra Brynju og Braga á skjáinn að nýju.
Í fréttum Ríkisútvarps (31.10.2014) var sagt: ,, … staðfestir að málið hafi borist inn á borð lögreglunnar”. Í frétt í DV sama dag segir: ,,Málið fór á borð lögreglunnar á Selfossi fyrir þremur vikum …”. Merkilegt þetta borð lögreglunnar. Enn hafa þó engar myndir verið birtar af því svo vitað sé. En þetta er hvimleið klisja.
Heldur er þessi erlenda frétt á mbl.is (31.10.2014) nú illa skrifuð. Rútan féll. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/10/31/17_letust_i_rutuslysi/
Meira af mbl.is sama daga. Ekki batnar það: ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svipti í dag tveimur konum ökuréttindum til bráðabirgða en þær voru staðnar að hraðakstri í Arnarbakka í Reykjavík til móts við Dvergabakka.” Hvernig gerast svona slys? Tvær konur voru sviptar ökuréttindum. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/31/77_km_hrada_i_30_gotu/
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (01.11.2014) var talað um langan samningafund tónlistarkennara og viðsemjanda þeirra. Sá sem skrifaði fréttina hefur líklega ekki fylgst lengi með kjaraviðræðum á Íslandi, fyrst hann kallar þriggja klukkustunda samningafund langan!
Svona orðaði Ríkisútvarpið þetta: ,,Löngum samningafundi tónlistarskólakennara og sambands íslenskra sveitarfélaga lauk um sexleytið í kvöld. Fundurinn hafði þá staðið í um þrjár klukkustundir. Engin niðurstaða fékkst á fundinum.”
Fyrirsögn í Morgunblaðinu (01.11.2014): Forsetinn knúinn til afsagnar – Þaulsætinn leiðtogi gaf eftir. Svo það sé á hreinu, þá var fréttin um forseta Búrkína Fasó í Afríku.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar