«

»

Molar um málfar og miðla 1607

Íslenska skyrið vann til þriggja gullverðlauna og þriggja heiðursverðlauna, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á laugardagskvöld (01.11.2014). Þarna hefði átt að tala um þrenn og fern verðlaun eins og Magnús Hlynur Hreiðarsson fréttamaður réttilega gerði í fréttinni.

Verðlaun er fleirtöluorð. Ekki til í eintölu. Fréttaþulur Stöðvar tvö þarf að lesa upp og læra betur.

 

Þágufallið af orðinu hreppur er hreppi, ekki hrepp, eins og dagskrárkynnir Ríkissjónvarps margsagði á föstudagskvöld (31.10.2014). Nú er komið að Ásahrepp og Fjarðabyggð, var okkur sagt aftur og aftur, þegar Útsvar var kynnt til sögu í dagskránni.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins (01.11.2014) var talað um svokallaða Papa. Þar sagði í frétt: ,, … meðal annars svokallaðir papar, sem voru írskir og skoskir munkar.” Sjá: http://www.ruv.is/frett/husarustir-i-herjolfsdal

 

Verðlaun eins og þessi fylli mann bjartsýni og skili orðspori til íslenskrar kvikmyndagerðar, sagði fréttamaður í fréttum Ríkissjónvarps um afhendingu norrænu kvikmyndaverðlaunanna í Stokkhólmi (01.11.2014). Svona hefur Molaskrifari ekkiheyrt til orða tekið áður. Að skila orðspori til. Talað er um að bæta orðspor , umtal, umfjöllun, eða skaða orðspor, málstað eða umtal.

 

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (02.11.2014) er fyrirsögnin Viðundrið Versalir. Átt er við Versalahöllin frægu í Frakklandi. Molaskrifara finnst einkennilegt að kalla höllina viðundur, sem í flestra huga er neikvætt orð. Samanber að verða að viðundri, verða sér til skammar eða gera sig að fífli. Einhverjir eru líklega þeirra skoðunar að Versalir séu eitt af undrum veraldar. En það er allt annað mál.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Sigurður Oddgeirsson skrifar:

    Gæti verið glópaþýðing á danska orðinu vidunderlig, sem hefur jákvæða merkingu! Kennski verið betra fyrir þann, sem samdi yfirskriftina: viðundursleg!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>