«

»

Molar um málfar og miðla 1608

Langdregið og lítið upplýsandi viðtal var í Kastljósi við tvo karla um mótmælin á Austurvelli síðdegis á mánudag (03.11.2014). Kastljóssmenn hafa gert margt vel. Þetta viðtal fer ekki í þann flokk. Það var fjölmenni á Austurvelli. Molaskrifari efast um að þessir tveir hafi verið bestu fulltrúar fjöldans, sem þarna var samankominn.

 

Sjálfsagt er það nokkuð algengt í talmáli, þótt ekki sé alveg rökrétt, að segja engu munaði að illa færi, eins og gert var í fyrirsögn á mbl.is (01.11.2014), þegar litlu munaði eða mjóu munaði að illa færi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/01/engu_munadi_ad_illa_faeri_a_thjodveginum/

Molaskrifari hnaut samt um þessa fyrirsögn.

 

Molaskrifari hélt, að fréttamenn Ríkisútvarpsins væru búnir að læra, búnir að tileinka sér, hvernig ætti að bera fram heitir bandaríska ríkisins Arkansas, frb /a:rkanso/ . Svo er greinilega ekki. Í morgunfréttum (04.11.2014) talaði reyndur fréttamaður skýrt og greinilega um /arkansaS/! Þetta er erfitt. Ótrúlega erfitt. Samt ekki flóknara en svo að þeir sem  ekki kunna þurfa  bara að hlusta á Svein Helgason, fréttamann Ríkisútvarpsins vestra til að ná þessu.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (04.11.2014) var rætt við mótmælendur á Austurvelli daginn áður. Umsjónarmaður sagðist hafa tekið tal af nokkrum viðstöddum. Þetta er ekki gott orðalag. Málfarsráðunautur ,sem rætt var við seinna í þættinum hefði mátt gera athugasemd við þetta. Það hefur líklega ekki þótt við hæfi. Rétt hefði verið að segja, – til dæmis, – náði tali af nokkrum sem þar voru staddir, eða  tók nokkra tali,sem voru á Austurvelli.

 

Það er ágætt hjá umsjónarmönnum Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu að ræða við málfarsráðunaut einu sinni í viku. En umræðan var dálítið skondin að morgni þriðjudags (04.11.2014). Okkur var sagt að rætt yrði við málfarsráðunaut og umsjónarmaður lýsti áhuga á að spyrja um fyrirsagnir,,sem við yrðum að passa okkur á” eins og um slæm loftgæði, þegar ætti að tala um lítil loftgæði. Rétt. En skömmu áður hafði í átta fréttum verið  talað um slæm loftgæði og umsjónarmaður þáttarins hafði sagt að loftgæði væru ekki sem best og talað um  slæm loftgæði fyrir fólk með sjúkdóma í öndunarfærum !!!  Það þurfti ekki að vitna til fyrirsagna. Þarna var leitað langt yfir skammt. En það er rétt sem málfarsráðunautur sagði, – þetta er ekki rétt. Það er eitthvað öfugsnúið við að tala um góð gæði. Málfarsráðunautur talaði um háan styrk eða lágan styrk. Molaskrifari hallast að því að betra væri að tala um lítinn styrk eða mikinn styrk.

Í samtölum  við málfarsráðunaut í Morgunútgáfunni mættu menn líta sér nær.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Kristján skrifar:

    „Málfarsráðunautur talaði um háan styrk eða lágan styrk. Molaskrifari hallast að því að betra væri að tala um lítinn styrk eða mikinn styrk.“

    Er sammála þessu. Sama má segja um verðbólgu. Margir tala um háa og lága verðbólgu en ekki mikla og litla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>