Fréttir og veðurfréttir voru í þynnsta lagi í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (05.01.2015). Urðu að víkja fyrir íþróttum. Þær hafa forgang. Alltaf. Til hvers er sérstök íþróttarás? Hvers eiga þeir að gjalda, sem hafa meiri áhuga á almennum fréttum, innlendum og erlendum og veðurfréttum en íþróttum?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.01.2015) var sagt að sýslumannsembætti yrðu lokuð. Átt var við að skrifstofur tiltekinna sýslumannsembætta yrðu lokaðar. Í sömu frétt var talað um hvar sýslumenn yrðu staðsettir samkvæmt nýrri skipan mála. Skorað er á málfarsráðunaut að kveða nú staðsetningardrauginn niður á nýju ári ,- drauginn, sem ríður húsum fréttastofunnar í Efstaleiti.
Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (03.01.2015) Var sagt: … virðast vöruverð hafa hækkað. Betra hefði verið að segja: … virðist vöruverð hafa hækkað.
Þegar hópur íþróttafréttamanna velur Íþróttamann ársins, þjálfara ársins, og svo framvegis er það vissulega frétt. Íþróttafrétt. Það er hinsvegar ekki efni í hálfs annars klukkutíma beina útsendingu í aðaldagskrá Ríkis sjónvarpsins á besta tíma á laugardagskvöldi. Við eigum betra skilið. Þetta efni hefði átt að sýna á íþróttarásinni. Hversvegna var það ekki gert? – Þetta dróst á langinn og seinkaði dagskrá sjónvarpsins um tíu mínútur. Vélkonurödd Ríkissjónvarpsins ræður hvorki við að kynna slíkar fyrirvaralausar breytingar né heldur að biðja áhorfendur afsökunar.
Holtaskóli f´ær Gránfánann, segir í fyrirsögn í Garðapóstinum (02.01.2015). Í undirfyrirsögn segir: Heilsuskólinn Holtakot fær Gránfánann í þriðja sinn. Skólinn er áreiðanlega vel að þessum heiðri kominn. En í fréttinni kemur fram að hér er átt við svokallaðan Grænfána. Sem er viðurkenning fyrir vinnu að átthagaverkefni. Gránfáni er reyndar óskiljanleg orðleysa. Eitthvað vantar þarna upp á að prófarkalesturinn sé í góðu lagi.
Í Fréttablaðinu (03.01.2015) segir: ,,Byggja á um tíu þúsund fermetra lón í botni Stóradals.” Þetta er tilvitnun í fundargerð skipulagsnefndar Ölfuss. En hvernig byggja menn lón? Væri ekki eðlilegra að tala um að mynda lón?
Áramótaskaup Ríkissjónvarpsins var endursýnt á laugardagskvöld (03.01.2014). Molaskrifara þótti það stórum betra en frumsýningin á gamlárskvöld. Margt prýðilega gert. Ýmislegt kom í ljós, sem farið hafði framhjá er fyrst var horft. Endurmat: Með betri Skaupum.
James Bond er ágætur í hæfilegum skömmtum. Nýlega sýndi RíkissjónvarpiðBondmyndina Skyfall og kallaði myndina Skýfall. Undarleg nafngift.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Kristján skrifar:
06/01/2015 at 10:46 (UTC 0)
Ég segi það sama….til hvers er sérstök íþróttarás ? Þetta eru æfingaleikir fyrir HM og lítill áhugi fyrir þessu. Eins og vanalega snýst þetta líklega um peninga, þ.e. að styrktaraðilar og auglýsendur heimti að hafa þetta á aðalrásinni, hér á RÚV.
Sá Óskarsverðlaunaþátt RÚV á íþróttamanni ársins í „tímaflakki“ sjónvarps. Þetta var nú meiri langlokan, þurfti að spóla áfram og áfram til að nálgast eitthvað bitastætt.
Gaman að sjá Ásgeir Sigurvinsson og Pétur Guðmundsson taka við heiðursverðlaunum. Skrítið að Pétur hafi ekki verið valinn íþróttamaður ársins á sínum tíma. Jón Arnór er frábær íþróttamaður góð fyrirmynd.