Molavin skrifaði (04.01.2015): ,,Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins auglýsir blaðið eftir viðskiptablaðamanni. Eftirtektarvert er að þar er tekið fram að „mjög góð íslenskukunnátta“ sé nauðsynleg. Þetta er lofsvert og vonandi taka aðrir fjölmiðlar upp þessa stefnu.”
Undir það tekur Molaskrifari og þakkar bréfið.
Haukur Kristinsson skrifaði frá Sviss og bendir á eftirfarandi frétt á mbl.is (31.12.2014):
,,Ólafs Thors minnst á hálfrar aldar ártíð.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins minntist Ólafs og sagði meðal annars: „Ólafur Thors var einn af stærstu stjórnmálamönnum sem Ísland hefur alið.”
Haukur segir: ,,Blessaður Eiður.
Ertu sáttur við það að tala um „stóran“ stjórnmálamann? Á þýsku er það í lagi, t.d. „ein grosser Politiker“.
Væri ekki nær að tala um merkan, mikilhæfan,góðan……
Bara vangaveltur. Gleðilegt nýtt ár og kveðjur frá Sviss.”. Molaskrifara þakkar Hauki áramótakveðjur og er sammála honum um að eðlilegra væri að tala um merkan eða mikilhæfan stjórnmálamann.
Í Morgunblaðinu á gamlársdag var rætt við bókaútgefanda, sem sagði: ,, … höfum við markvisst unnið að því að útgáfan nái yfir breiðari tíma á árinu, svo eggin séu fleiri í körfunni”. Hefði ekki verið eðlilegra að segja , – svo eggin séu í fleiri körfum, – ekki öll í sömu körfunni, sem er jólabókaútgáfan í þessu tilviki?
Nú er glatt á hverjum hól, sagði ung stúlka í lok þáttar rétt fyrir klukkan 19 00 á nýársdag í Ríkisútvarpinu, Rás tvö! Þetta hljómaði ekki svona, þegar Molaskrifari lærði þetta fyrir býsna löngu.
Úr frétt á mbl.is (30.12.2014): Slæmt veður var þegar vélin lenti, en hún fipaðist á flugbrautinni og endaði í drullusvaði fyrir utan hana. Vélin fipaðist á flugbrautinni! Það var og. Einnig var okkur sagt að enginn hefði slasast í slysinu. Fréttabarn á vaktinni kvöldið fyrir gamlársdag. Hvar er nú metnaðurinn til að gera vel? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/30/thota_airasia_for_ut_af_flugbraut_2/
Um orðanotkun: Forsætisráðherra, SDG, fékk sig ekki til að taka sér í munn orðið hrun í ávarpi sínu til þjóðarinnar á gamlárskvöld. Hann talaði, held ég fjórum sinnum um það sem hann kallaði fjármálaáfallið. Flokkur hans bar þó vissulega sína ábyrgð á bankahruninu hér. Heldur betur. Það á að nefna hlutina réttum nöfnum. Forsetinn talaði hins vegar um hrun í ávarpi sínu á nýársdag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar