«

»

Molar um málfar og miðla 1644

 

Gleðilegt ár, ágætu Molalesendur. Kærar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti, gagnlegar ábendingar og hlýjar kveðjur á nýliðnu ári.

 

Að morgni nýársdags, þegar Molaskrifari var að hreinsa lausamjöll af stéttinni hjá sér, kom granni, sem hann hefur ekki áður hitt, yfir götuna, kynnti sig og  óskaði Molaskrifara  gleðilegs árs og þakkaði honum skrifin.

Þetta þótti Molaskrifara góð byrjun á nýju ári. Takk.

 

Í þáttarlok á Bylgjunni (29.12.2014) rétt fyrir flutning kvöldfrétta  talaði þáttarstjórnandi um að þennan dag hefðu samtökin Young Men´s Christian Association verið stofnuð í Bandaríkjunum árið 1844  (Wikipedia segir samtökin reyndar hafa verið stofnuð 6. júní það ár). Félagi hans bætti því við, að við þekktum þessi samtök betur sem væemmsíei (YMCA)! Hvorugum þeirra datt í hug að nefna hliðstæð íslensk samtök, KFUM, Kristilegt félag ungra manna.

Þeir félagar töluðu líka um eftirmála tsunami, flóðbylgjunnar miklu, sem banaði á þriðja hundrað þúsund manns í Asíu á jólum 2004. Þarna hefði átt að tala um eftirmál eða afleiðingar. Ekki eftirmála. Eftirmáli er stuttur pistill í lok bókar. Mjög algengt að þessu sé ruglað saman.

 

Í fréttum (29.12.2014) sagðist félagsmálaráðherra telja að ný lög stæðust lög. Ráðherra virtist eiga við að lögin væru ekki andstæð stjórnarskrá.

 

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (29.12.2014): Afdrif Airbus vélarinnar hefur verið líkt við afdrif ….. Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Afdrifum Airbus vélarinnar hefur verið líkt við afdrif … , eða …. afdrif Airbus  vélarinnar þykja minna á afdrif …

 

Á vef Ríkisútvarpsins þar sem kynnt var dagskrá Rásar eitt mátti (29.12.2014) lesa eftirfarandi: Málþing  til heiðurs Margrétar Indriðadóttur. – Margréti hefði ekki þótt þetta góð fyrirsögn. Hún var fréttastjóri fréttastofu útvarpsins um árabil og lagði mikla áherslu á málvöndun. Málþing  til heiðurs Margréti Indriðadóttur, hefði þetta átt að vera.

 

Þakklátt væri, ef eigendur gæludýra héldu þeim inni,. – eitthvað á þessa leið var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (30.12.2014) í frétt um áhrif flugeldasprenginga á dýr um áramótin. Ekki þekkir Molaskrifari þessa notkun orðsins þakklát eða þakklátur. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis;goyy væri,  æskilegt væri , að, eða óskandi væri, að…

 

Hvers vegna er verið að hrópa á okkur? Svona spurði öldruð kona þar sem Molaskrifari var staddur um jólin. Útvarpið var á og beðið var frétta á Rás eitt. Ekki var spurt að ástæðulausu. Í auglýsingum frá Lottóinu, Íslenskri getspá, er til dæmis  hrópað, eða næstum gargað á hlustendur. Það er  Ríkisútvarpinu ekki til sóma að flytja svona auglýsingar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>