«

»

Molar um málfar og miðla 1676

 

Fróðlegt var að hlusta á  Laugardagsviðtal Egils Helgasonar (14.02.2015) við Björn Bjarnason.  Björn er sjór af fróðleik um alþjóðastjórnmál og sögu. Hann fylgist vel með gangi heimsmála og er víðlesinn. Oft er Molaskrifari sammála Birni , en finnst hann þó draga rangar ályktanir af því sem hann les um Evrópumálin! En þetta var fínt viðtal og Egill er góður spyrill.

 

Grindhvalir syntu upp í fjöru á Nýja Sjálandi og drápust allmargir. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.02.2014) þóttist Molaskrifari heyra að talað væri um lík hvalanna. Það var svona í svefnrofunum og hlýtur að hafa verið misheyrn. Þessi fréttatími er ekki aðgengilegur á netinu.

 

Þetta er svona ,,sing off” sagði formaður einhverrar Evróvisjón dómnefndar í útvarpsviðtali (14.02.2015). Óþörf enskusletta. Menn eiga að slá um sig með einhverju öðru en slettum úr erlendum málum.

 

Veðurfræðingar eiga ekki að nota orðið snjóstormur í veðurfréttum (Ríkissjónvarp 14.02.2015). Þetta orð er hráenska (snowstorm). Við eigum nóg af góðum orðum sem nota má í staðinn, hríð, stórhríð, bylur, snjókoma. Bara ekki tala um snjóstorm.

 

Að skaðlausu hefði Ríkissjónvarpið mátt breyta dagskrá sinni á mánudagskvöld (16.02.2015) og sýna okkur beint frá minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna voðaverkanna, sem þar voru framin. Það var ekki gert. Hvað sem veldur. Kannski datt ráðamönnum það ekki í hug. Kannski er kerfið of þungt í vöfum. Kannski er dómgreindin bara ekki í lagi

 

Umfjallanir komu við sögu í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (14.02.2014). Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Umfj%C3%B6llun

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (15.02.2015) var fjallað um fangelsismál. Í fréttinni var sagt oftar en einu sinni að nýtt fangelsi á Hólmsheiði mundi opna, ætti að opna. Aldrei kom fram hvað fangelsið mundi opna. Molaskrifara var kennd sú regla á sínum tíma að sögnin að opna væri áhrifssögn og henni fylgdi andlag í þolfalli. Þessi regla virðist á undanhaldi. Hún er ekki í hávegum höfð í fjölmiðlum. Ríkisútvarpið er þar ekki eitt á báti. Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

 

Marga gimsteina er að finna í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Þeirra á meðal er lestur prófessors Jóns Helgasonar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hljóðritunin er frá árinu 1969. Og ekki spillir söngur Kristins Hallssonar á undan lestrinum. Lesturinn er á dagskrá eftir tíu fréttir á kvöldin, þó ekki á sunnudagskvöldum. Unun á að hlýða. Lesturinn seiðmagnaður.

Þegar vel stendur á fylgist Molaskrifari gjarnan með lestrinum og horfir á textann í fertugustu og fimmtu útgáfu Passíusálmanna frá 1920. Bókin er smá í sniðum, þótt innihaldið sé stórt, í fallegu leðurbandi, svolítið snjáð.  Fremst í bókinni stendur ritað snyrtilegri hendi: Guðni Guðmundsson á að eiga þessa bók á afmælisdaginn 1925. Frá Lóu. – Faðir minn hefur þá orðið 21 árs. Lóa var Ólöf Guðmundsdóttir (1901-1985), systir Guðna föður míns (1904-1947). Þau voru úr hópi þrettán systkina. Af þeim komust átta til fullorðinsára. Þau voru reyndar þremenningar að skyldleika við Jón Helgason, prófessor.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>