«

»

Molar um málfar og miðla 1675

 

Trausti benti Molaskrifara á þessa frétt á dv.is ((12.02.2015):

http://www.dv.is/frettir/2015/2/12/fekk-ofurbil-felagans-lanadan-og-klessti/

Trausti segir:
„Hámarkshraði bílsins eru rúmlega þrjú hundruð kílómetrar á klukkustund.
Töluverðar skemmdir urðu á bílnum en hann var sendur í viðgerð og kostaði hún litlar 261 þúsund pund.“

Trausti bætir við:
,,Hámarkshraði (eintala) … eru (fleirtölumynd) …
litlar (kvenkynsmynd) … þúsund (hvorugkyn) …
Greinilega hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.” Orð að sönnu,- hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.

 

Einnig bendir Trausti á þessa frétt sama dag á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/02/12/italia_er_ad_deyja/

„Alls fædd­ust 509.000 börn á Ítal­íu á síðasta ári, en sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um hafa ekki færri börn fæðst í land­inu á einu ári frá 1870 þegar öll ríki sunn­an Alpa­fjalla var sam­einað í eitt ríki, Ítal­íu.“
Hann segir: ,,Æ, mér verður illt, víðar en í augunum, við að lesa svona hugsunarleysisgraut.
Öll ríkin voru sameinuð, en þau var ekki öll sameinað.” – Rétt, Trausti. Þakka ábendingarnar.

 

Á föstudagskvöld (13.02.2015) varaði Veðurstofan við mikilli úrkomu. Í fréttum var sagt að ,,sólarhringsrennsli gæti orðið 100 mm”. Sólarhringsrennsli? Á fréttavef  Ríkisútvarpsins stóð: ,,Sólarhringsrennsli þar sem verst lætur gæti farið yfir 100 millimetra. “

http://www.ruv.is/frett/varad-vid-hlaku-og-vatavoxtum

Þetta var ekki mjög skýrt eða auðskilið að mati Molaskrifara. Þetta er hinsvegar skýrt ágætlega á vef  Veðurstofunnar, en þar segir: ,, Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og vestanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) farið vel yfir 100 mm (sjá meðfylgjandi kort, smellið á til að fá nánari skýringar). Sjá: http://www.vedur.is/um-vi/frettir/nr/3077

Þetta hefði mátt skýra betur fyrir þeim sem hlustuðu á  Ríkisútvarpið.

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (13.02) var greinargott og skilmerkilegt yfirlit yfir málaferli sem nú eru á döfinni vegna ýmissa mála, sem tengjast hruninu. Fróðleg samantekt.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.02.2015) var talað um nýliðna kjarasamninga við lækna. – Nýgerða kjarasamninga við lækna. Í sama fréttatíma sagði annar fréttamaður: Flutt var inn tvö þúsund … tonn (af kjöti) Flutt voru inn ….. Hefði það átt að vera.

 

Í lok Vikulokanna á Rás eitt sl. laugardag (14.02.2015) greindi Helgi Seljan umsjónarmaður skilmerkilega frá því hverjir þar hefðu rabbað saman. Þannig á það að vera.

 

Kúreki næturinnar (Midnight Cowboy) sem Ríkissjónvarpið sýndi í gærkveldi (15.02.2015) er eðalfín mynd. Dustin Hoffman er óbrigðull.  Minningaþátturinn um Árna Scheving var góður. Nöfn hefðu þó mátt skila sér betur á skjáinn. Í Landanum var hápunkturinn fyrir Molaskrifara heimsóknin í einstæða Einarsbúð á Akranesi. Gaman að sjá góða vini, Einar og Ernu, þar í fullu fjöri. Ólíklegt er að nokkur verslun á landinu eigi jafn tryggan hóp viðskiptavina og Einarsbúð og er það að verðleikum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>