«

»

Molar um málfar og miðla 1674

 

Það þvælist fyrir sumum að skrifa fréttir um jarðgöng. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni  (12.02.2015) var fjallað um vandræðin við gerð Vaðlaheiðarganga, þar sem virðist hafa verið gengið fram af meira kappi en forsjá. Í fréttinni var talað um gangnagröft. Þessi villa heyrist aftur og aftur. Gangagröft, hefði þetta átt að vera. Eignarfallið af orðinu göng er ganga. Eignarfall orðsins göngur, í merkingunni fjárleitir að hausti, er gangna. Gangnamenn. Þeir sem fara í göngur. Oft hefur verið að þessu vikið í Molum.

 

Af mbl.is (11.02.2015): “Kim Kar­dashi­an West er orðinn þreytt á að heyra og sjá um­fjall­an­ir í fjöl­miðlum um kyn­lífs­mynd­band henn­ar …”

Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Muna það næst, mbl.is.

 

Nokkuð algengt er að heyra sagt: Þegar hér var komið við sögu … (Veðurfréttir í Ríkissjónvarpi  11.02.2015). Hér hefði átt að segja: Þegar hér var komið sögu, – þegar hér var komið. Að koma við sögu er að taka þátt í einhverju, eiga aðild að einhverju. Auk Jóns og Sigurðar komu Pétur og Páll einnig við sögu … En, þegar hér var komið sögu, tók Jón til sinna ráða.

 

Ríkissjónvarpið byrjar alla jafna útsendingar á virkum dögum  klukkan 16 30, – nema boltaleikir eigi í hlut. Þá er byrjað fyrr. Fram að þeim tíma er Stöð tvö einráð á öldum ljósvakans , til dæmis á sjúkrahúsum , dvalarheimilum og víðar. Ríkisútvarpið ætti alvarlega að íhuga að hefja útsendingar fyrr á daginn, heldur en að vera endursýna þætti eftir miðnætti og stundum langt fram á nótt. Þetta er sett fram svona til umhugsunar.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.02.2015) var rætt við Jakob Frímann Magnússon, sem annast málefni miðborgarinnar í Reykjavík á vegum borgaryfirvalda. Hann ræddi af skynsemi um bílastæðamálin í miðborginni og grennd og verslanir og hótel. Molaskrifari er á því, að Jakob Frímann ætti fremur að vera formaður skipulagsnefndar borgarinnar en sá sem nú gegnir því starfi og virðist einna helst vilja útrýma bílum og að fólk ferðist annaðhvort á hestum postulanna eða reiðhjólum. Jakob leit raunsætt á málin. Engir ofstækisórar gegn bílum og bíleigendum. Molaskrifari áttaði sig hinsvegar ekki á samanburði Jakobs á Reykjavíkurflugvelli og flugvöllunum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.

 

Þegar tíu fréttum seinkar eins og í gærkveldi (12.02.2015) á Ríkissjónvarpið að segja okkur frá því með skjáborða. Það er tæknilega mjög einfalt. Það var ekki gert í gærkveldi. Það eru ekki góðir mannasiðir.

 

Morgunblaðið birtir leiðréttingar. Það er sagt blaðinu til verðugs hróss. Það gera nefnilega ekki allir fjölmiðlar. Á fimmtudag birti blaðið leiðréttingu vegna myndbirtingar í dálknum Þetta gerðist … þar sem rifjaðir er upp liðnir merkisatburðir. Birt hafði verið mynd af saxófónleikaranum Charlie Parker (einmitt að leika á saxófón) í stað myndar af trompetleikaranum Dizzy Gillespie. Það er klaufaskapur eða víðáttumikil vanþekking að villast á þessum tveimur snillingum, sem vissulega áttu samleið í jassheimum. Molaskrifari hlustaði á Dizzy Gillespie í ausandi rigningu á Newport Jazz Festival árið 1979 og hefur alla tíð haft dálæti á honum. Hlustaði nýlega og horfði á gamla BBC upptöku af Jazz at the Philharmonic á Youtube þar sem hann fór á kostum.

Chromecast er magnað tól til að hlusta og horfa á Youtube myndbönd í sjónvarpi. Góð græja.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Viið tölum um evru.

  2. heimir skrifar:

    Evróvision? Hvort ætlarðu að nota engilsaxsneska eða íslenska orðið yfir þetta? (Hástafa villan meðvituð)

  3. Eiður skrifar:

    Já, þetta er hálfömurlegt. Sammála þér, Kristján. Þetta ber fyrst og fremst vott um ranga forgangsröðun hjá stjórnendum Ríkisútvarpsins. Lélega dagskrárstjórn. Fyrr má rota, en dauðrota.

  4. Kristján skrifar:

    „Með reglulegu milli verður Ríkisútvarpið okkar heltekið, alveg gegnsýrt af einhverju, og þess sér merki daginn út og daginn bæði í dagskrá útvarps og sjónvarps. Oftast eru þetta íþróttir. Alltaf boltaíþróttir. Stundum er það popp. Nú er það söngvakeppnin Evróvisjón , sem er hamrað á daginn út og daginn inn.“

    Þetta skrifaðir þú í gær, Eiður, og ég tek undir það.

    Handboltaþráhyggjan og Evróvisjónþráhyggjan ríður ekki við einteyming….hér á RÚV.
    Hvorutveggja er troðið í dagskrána, alla daga vikunnar, með einum eða öðrum hætti. Oft er líka verið kynna dagskrárlið sem er lokið, þ.e.a.s. hann var sýndur fyrr um kvöldið. Er enginn að fylgjast með þarna ? Og svo ættu veðurfréttir auðvitað að koma strax í kjölfar frétta, og þá meina ég strax og án tafar. Þetta er til skammar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>