Af mbl.is (18.02.2015) : ,Ungt par sem ætlaði að krydda tilveruna hjá sér í sumarbústað í Borgarbyggðinni um liðna helgi með því að útbúa sér kannabis-ís, eftir uppskrift af Netinu, beit heldur betur úr nálinni þegar það byrjaði að gæða sér á ísnum”.
Molaskrifari játar að hann áttar sig ekki á þessari notkun orðtaksins að bíta úr nálinni, – bíta þráð í sundur til að losa nálina ( Mergur málsins, bls. 622) Oft er sagt, til dæmis., að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, – ekki séu afleiðingar einhvers verknaðar eða aðgerðaleysis komnar í ljós. – Hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með framkomu sína gagnvart konunni í gærkvöldi.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/18/bordadi_hassis_og_hljop_um_nakinn/
,,… renni til samfélagsins og uppbyggingu þess.” Þannig var til orða tekið í Speglinum í Ríkisútvarpinu (18.02.2015). Hefði að mati Molaskrifara átt að vera: .. renni til samfélagsins uppbyggingar þess.”
Bókstafurinn – r – í miðjum orðuð vefst stundum fyrir fréttaskrifurum. Í Garðapóstinum (19.02.2015) er svohljóðandi fyrirsögn: Lykillinn er hugafar Garðbæinga. Þarna ætti að standa: Lykillinn er hugarfar Garðbæinga, – eins og réttilega er skrifað í fréttinni.
Á fimmtudagsmorgni (19.02.2015) var í sjö fréttum Ríkisútvarps vitnað í bandaríska dagblaðið Los Angleles Times. Upp á ensku var það kallað / ell ei tæms /. Þetta var endurtekið í fréttum klukkan átta. Óþarfi. Hversvegna nota enska skammstöfun? Þetta hefur reyndar heyrst áður.
Sama morgun var rætt við starfsmann Ríkisútvarpsins, sem staddur var í Leifsstöð. Þar höfðu farangursfæribönd bilað og valdið töfum. Starfsmaðurinn var að detta inn í öryggisleitina og hlustendur fengu að heyra að flugum hefði verið frestað! Vonandi hefur sá sem rætt var við ekki slasast við fallið og flugunum ekki orðið meint af frestuninni. Nú um stundir er það mjög í tísku þegar eitthvað er nýafstaðið eða er í þann veginn að gerast að segja að það sé að detta inn, nýkominn gestur var að detta inn. Heldur hvimleitt finnst málfarsíhaldinu sem þetta skrifar. – Í átta fréttum sagði Haukur Holm fréttamaður að ekki kæmi fram á vef Isavia, að bilunin á færiböndunum hefði valdið töfum á flugi. Það er gott orðalag.
Orðið staðsetning og sögnin að staðsetja heyrast æ oftar, – að tilefnislausu. Í hádegisfréttum (19.02.2015) á fimmtudag var sagt: Staðsetning viðræðnanna hefur þó ekki verið ákveðin. Viðræðustaður hefur ekki verið ákveðinn. Ekki hefur verið ákveðið hvar viðræðurnar fari fram.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar