Í íþróttafréttum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.02.2015) sagði fréttamaður að af sérsamböndunum væri starfsemi Knattspyrnusambandsins sú umfangsmesta á ársgrund velli. Ársgrundvöllur , títtnefndur, er ævinlega til óþurftar í fréttum.
Svo var okkur sagt að framkvæmdastjóri sambandsins ætlaði að stíga til hliðar. Stíga til hliðar (e. step aside). Það hefði betur farið á því að segja að framkvæmdastjórinn ætlaði að hætta, láta af störfum. Oft hefur verið að þessu hér í Molum áður.
Þetta birtist á mbl.is (19.02.2015): „Ég hef jafnvel haft tækifæri til að versla lopapeysu og bragða á staðbundnu lostæti,“ segir Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, í myndbandi sem birt var í dag á Facebook-síðu bandaríska sendiráðsins … “ Ekki er hægt að segja að þetta sé góð þýðing á orðum bandaríska sendiherrans. Hann keypti sér lopapeysu (e. ,,even had the chance to shop for lopapeysa”). Verslaði ekki lopapeysu. Hann bragðaði á íslenskum kræsingum, krásum, góðgæti, – ekki staðbundnu lostæti. (e. ,,local delicacies”) Þýðingar hafa aldrei verið hin sterka hlið Morgunblaðsins.
Óskarsverðlaunin fara fram á sunnudaginn, var sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (20.02.2015). Óskarsverðlaunahátíðin fer fram á sunnudaginn , eða Óskarsverðlaunin verða afhent á sunnudaginn, hefði verið eðlilegra orðalag.
Í fréttum Ríkissjónvarpsins sama dag var okkur sagt, að uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks yrði haldin hátíðleg í kvöld. Hátíðir eru ekki haldnar hátíðlegar. Hér hefði verið einfaldara að segja, til dæmis: Uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks er í kvöld. Svo ræddi fréttamaður sjónvarpsins við mann, sem unnið hafði til ,,fjögurra verðlauna”. Það virðist mörgum erfitt að átta sig á að orðið verðlaun er fleirtöluorð. Rætt var við mann sem unnið hafði til fernra verðlauna.
Gott var að fá kvikmyndina Good Night and Good Luck , Góða nótt og gangi ykkur vel á skjá Ríkissjónvarpsins í gærkveldi (22.02.2015). Merk saga um góða blaðamennsku og baráttuna gegn öldungadeildarþingmanninum alræmda Joseph McCarthy. Þeir Edward R. Murrow og Fred Friendly voru í fremstu röð í bandarískri blaðamennsku á síðustu öld. Til er ágæt bók sem heitir: Edward R. Murrow and the Birth of Broadcast Journalism. Höfundurinn heitir Bob Edwards. . Hana ættu blaðamenn að lesa.
Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu sl. fimmtudag (19.02.2015) voru flutt tvö verk eftir Ludwig van Beethoven. Þá rifjaðist það upp fyrir skrifara að fyrir margt löngu voru fluttir í Ríkisútvarpinu þættir þar sem Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálráðherra, kynnti sinfóníur Beethovens. Þetta var framúrskarandi efni, smekklegar og fróðlegar kynningar og skýringar, eins og Gylfa Þ. Gíslasonar var von og vísa. Séu þessir þættir til í segulbandasafni Ríkisútvarpsins væri ástæða til að endurflytja þá við tækifæri. Sennilega hafa þættirnir verið frumfluttir um eða eftir 1980.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar