«

»

Molar um málfar og miðla 1681

 

Í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2015) var greint frá fyrirhugaðri gerð kvikmyndar um örlög flutningaskipsins Suðurlands. Í inngangi fréttarinnar las fréttaþulur: ,, … þar er greint frá hinum þekktu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlandi og áhöfn þess.” Hér er ófullburða hugsun að baki. Þulur hefði betur sagt: ,, .. þar er greint frá hinum kunnu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlands og áhafnar þess.” Fréttamaður bætti um betur og sagði , að ,,margt benti til þess að skipið hafi verið tekið yfir af sovéskum, jafnvel breskum kafbáti”. Þetta var ekki skýrt frekar. Við hvað var átt? Réðust sovéskir eða breskir sjóliðar um borð í skipið?  Í frétt á fréttavefnum visir.is er hinsvegar talað um að skipið hafi verið tekið niður: ,, Margt bendir til að skipið hafi verið tekið niður af sovéskum eða jafnvel breskum kafbáti. Við hvað er átt? Sjá: http://www.visir.is/hyggst-gera-stormynd-um-skipskada-sudurlandsins/article/2015150229882

Þetta eru ekki fyrirmyndarvinnubrögð.

 

Ríkissjónvarpið, sem berst í bökkum fjárhagslega og á mjög á brattann að sækja, lætur sig hafa það að halda áfram að sóa milljónum í svokallaðar Hraðfréttir.   Í síðasta þætti (20.02.2015) talaði hraðfréttamaðurinn þrisvar sinnum um sigra keppnina. Þarf að segja margt um það orðalag?

Í dagskrárauglýsingu á laugardagsmorgni (21.02.2015) var talað um sigurvegara íslensku tónlistarverðlaunanna. Það var sem sé sá sem sigraði verðlaunin. Málfarsráðunautur mætti taka þetta til athugunar.

 

Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerði hikorð eins og hérna, þarna og svona ( frb. héddna þaddna og sona) nýlega að umtalsefni á fésbók. Páll er manna smekkvísastur um málfar. Notkun þessara hikorða, eða kækorða, eins og einnig mætti kalla þau var einkar áberandi er rætt var við tvo sérfróða um notkun mynddeiliforritsins Instagram í Morgunútgáfunni (20.02.20156). Annar þeirra sem rætt var við tönnlaðist á héddna og sona í næstum hverri setningu og sletti óspart ensku. Stundum virðist fólk gera þetta næstum ósjálfrátt og því er þá greiði gerður með því að benda á þennan hvimleiða kæk. Áreiðanlega er vel hægt  að venja sig af þessu.

 

Það hvarflar að Molaskrifara að það sé liður í einhverskonar innrætingarstefnu Ríkissjónvarpsins að troða íþróttafréttum milli frétta og veðurfrétta. Á sunnudagskvöldum eru þetta heilar 15 mínútur og sannast sagna ekki allt mjög merkilegar fréttir. Hversvegna má ekki hafa íþróttafréttirnar á undan fréttatímanum, sem hefst klukkan 19 00?

 

Því miður heyrir það  næstum  til undantekninga að Ríkissjónvarpið standi við tímasetningar í auglýstri dagskrá? Á sunnudagskvöld (22.02.2015) hófst til dæmis prýðilegur þáttur um eldgosið í Holuhrauni sex mínútum seinna en auglýst var. Auglýstir dagskrártímar eru ekki lausleg viðmiðun. Þeir eiga að standa. Það á að vera hægt að treysta því að auglýstar tímasetningar standist. Stundvísi í útvarpinu, í dagskrá Rásar eitt, er hinsvegar nánast alveg óbrigðul og til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>