«

»

Molar um málfar og miðla 1682

Margt er innihaldið! Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (23.02.2015) var hlustendum sagt frá liðum, sem innihéldu ýmist íslenska leikmenn eða þjálfara!

 

Efni Landans í Ríkissjónvarpi er fjölbreytt og fróðlegt. Molaskrifari hafði gaman af heimsókninni í Byggðasafnið á Garðskaga (22.02.2015). Að skaðlausu hefði mátt gera hinu stórmerka vélasafni, sem Guðni Ingimundarson frá Garðstöðum á allan heiður af, betri skil. Molaskrifari komst meira að segja á skjáinn í nokkrar sekúndur! Sýnd var ljósmynd sem er í safninu. Þar var hann ásamt systkinum sínum og frændum um borð í árabáti afa síns á þurru landi við fiskverkunarhús Guðmundar Jónssonar á Rafnkelsstöðum við Rafnkelsstaðavör, Kópu, innstu vör í Garðinum. Myndin var sennilega tekin 17. júní 1945, – allir í sínu besta pússi. Molaskrifari á matrósafötum við stýrið, Guðjón Björnsson, smiður og sjómaður,  í Réttarholti, afi skrifara stendur við stefnið.

 

Oft er ruglað saman af og . Hér er dæmi af mbl.is (23.02.2015): Þær hafi ekki mátt yf­ir­gefa íbúðina af vild. Hér hefði átt að standa: Þær hafi ekki mátt yfirgefa íbúðina að vild, – Þegar þær vildu.

 

Enn einu sinni er vakin athygli á því, að eldsneytissalinn N1 býður fólki í útvarpsauglýsingum (23.02.2015) að versla matvörur. Mælt er með því að N1 skipti við auglýsingastofu þar sem fólk er betur að sér í íslensku. Við kaupum matvörur. Verslum ekki matvörur.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.02.2105) talaði fréttamaður um endurskoðun friðlýsingu. Hefði átt að vera endurskoðun friðlýsingar. Sami fréttamaður talaði í annarri frétt um aðstöðu sjúkrahússins á Akureyri. Væntanlega var átt við aðstöðu sjúklinga og starfsfólks á sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

Mænuskaðastofnun Íslands er sjálfsagt merkasta stofnun og málstaðurinn vissulega góður. Undarlegur er fjáraustur stofnunarinnar í mikla auglýsingaherferð í útvarpi og sjónvarpi. Stundum er sama auglýsingin sýnd tvisvar sama kvöldið. Hvað er verið að auglýsa? Það er ekki utanríkisráðuneytið, sem flytur tillögur hjá Sameinuðu þjóðunum. Tillögurnar eru fluttar,  lagðar fram og fyrir þeim mælt í nafni Íslands, – ekki utanríkisráðuneytisins sérstaklega. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins vinnur að málinu. Molaskrifari er handviss um að það þarf ekki  sjónvarpsauglýsingar til að hvetja utanríkisráðherra og starfsfólk ráðuneytisins til dáða í þessum efnum.

Þess vegna er þetta óskiljanleg auglýsingaherferð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>