Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (25.02.2015) var okkur sagt: ,,Haraldur fimmti Noregskonungur varð í gær fyrsti norski konungurinn til að heimsækja Suðurskautslandið og yfirráðasvæði Noregs þar”.
Hér er frétt Aftenposten frá 11. febrúar sl. um komu Haraldar konungs til Suðurskautslandsins. Fyrir hálfum mánuði!
http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/Kong-Harald-skrev-historie-i-Antarktis-7895562.html
Af mbl.is (24.02.2015):,, Grunnhugmyndin að baki endurskoðun laga um útlendinga sem nú fer fram hjá innanríkisráðuneytinu er að komið verði á fót móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur.” Molaskrifari spyr: Hefði þetta ekki átt að vera, – Grunnhugmyndin að baki endurskoðunar laga …. ?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/24/komi_upp_mottokumidstod_haelisleitenda/
Átakanleg og áhrifarík umfjöllum um átröskun í tveimur Kastljósþáttum fyrr í vikunni. Þetta var vel unnið og þeim til sóma sem að því stóðu. Vinnubrögð til fyrirmyndar. Vekur fólk til umhugsunar um þennan lúmska og lífshættulega sjúkdóm. Einnig þann sæg af svo kölluðum fæðubótarefnum, ,,grenningarlyfjum”, Kínalífselxerísum og snákaolíum sem hér er á boðstólum. Heldur er óhugnanlegt að hugsa til þess að hér skuli þrífast svartur markaður með hættuleg efni af þessu tagi.
Molaskrifari verður æ sannfærðari um að það var röng ákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að vera með sama morgunþáttinn á báðum rásum í tvær og hálfa klukkustund fimm daga vikunnar. Tilgangurinn með tveimur rásum var að auka fjölbreytni í dagskránni. Það gerist ekki með því að senda út sama efni á báðum rásum.
Líklega fer þeim hlustendum fjölgandi sem á morgnana flytja sig á aðrar stöðvar. Ekki skal úr því dregið að ýmislegt hnýsilegt efni er á boðstólum í Morgunútgáfu, Ríkisútvarpsins en ekki er Molaskrifari til dæmis viss um að firna langt viðtal um kjaramál framhaldsskólakennara, sem flutt var á miðvikudagsmorgni (25.02.2015) hafi höfðað til þorra hlustenda. Það er eins og vanti neista í þáttinn.
Ríkisútvarpið ætti að breyta þessu fyrirkomulagi. Vera með þátt á annarri rásinni, þar sem væri fyrst og fremst tónlist af ýmsu tagi ekki talað orð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Kristján skrifar:
26/02/2015 at 10:19 (UTC 0)
„Fjórir handteknir eftir líkamsárás“ (Visir.is). Orðið „eftir “ virðist hafa tekið við af
„vegna“. „Veginum var lokað eftir umferðaróhapp“.
„Aðsóknarmet slegin á Landsspítala.“ (Visir.is). Þetta hljómar undarlega.
„Veðrin eru ekkert verri en þau hafa verið, hins vegar eru bara miklu fleiri að fara út
í þessi veður“, segir viðmælandi í Fréttablaðinu.