«

»

Molar um málfar og miðla 1697

 

,,Amma, sem átti að halda á dóttursyni sínum undir skírn í London í dag ,var ekki hleypt um borð í flugvél Icelandair fyrir handvömm. Hún lenti á biðlista og missti af skírninni.” Þetta var sagt í fréttaágripinu á undan fréttum í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (15.03.2015) Setningin hefði auðvitað átt að byrja svona: Ömmu, sem átti að … var ekki hleypt um borð. Henni var ekki hleypt um borð. Þágufall. Þorði sá sem skrifaði ekki að byrja setninguna á þágufallinu Ömmu … eða vissi hann ekki betur? Svo er Molaskrifari vanur því að talað sé um að halda barni undir skírn, en ekki að halda á barni undir skírn. Þetta var endurtekið óbreytt í samantektinni í lok fréttanna.

Þetta leiðindaatvik var ótrúlegur klaufaskapur og viðbrögð Icelandair í Keflavík fyrir neðan allar hellur. En það var dæmi um gengisfellingu orðanna, þegar umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudagsmorgni (16.03.2015) kallaði atvikið harmleik. Þetta var afar slæmt, en varla harmleikur eins og við flest skiljum það orð.

 

Enn og aftur var okkur sagt á Stöð tvö á sunnudagskvöld (15.03.2015) að fólk ætlaði að stíga stokk, þegar fólk ætlaði að syngja eða dansa fyrir framan myndavélarnar. Talað er að stíga á stokk og strengja heit, lofa einhverju hátíðlega.. Ekki stíga á stokk og syngja lag. það er út í hött. Viðmælandi fréttamanns, sagðist búast við rosa sjói! Verið var að kynna þáttinn með ljóta nafninu Ísland Got Talent. –  Svo var að sjálfsögðu talað um troðfullan íþróttapakka, þegar sennilega var átt við fjölbreyttar íþróttafréttir. Það er víst ekki lengur hægt að tala um íþróttafréttir nema þær séu kallaðar pakki!

 

Umsóknir jukust, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps

(16.03.2015) Umsóknum fjölgaði, hefði verið eðlilegra orðalag.

 

Beyging orðsins birgir, vefst stundum fyrir fréttamönnum. Á vef Árnastofnunar segir: ,,Orðið birgir er haft um þann sem sér einhverjum, t.d. smásöluverslun, fyrir aðföngum.
Athugið að rétt nefnifallsmynd af orðinu er birgir (þf. birgi) en ekki birgi (þf. birgja):
Birgirinn gefur upplýsingar um vörurnar.
verð á vörum frá birgi
reikningurinn var sendur frá birginum.”

Í fréttum hádegisútvarps (16.03.2015) var talað um innflutt hrefnukjöt frá sama birgja. Hefði átt að vera frá sama birgi. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=birgir

 

Ræður hending því í veðurfréttum Ríkissjónvarps hvort okkur er sýnt veðrið í vesturheimi? Það virðist vera dálítið svona hipsum-haps.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála. Man einu sinni eftir að borganöfn hafi verið birt í veðurfréttum Ríkissjónvarps , – eins og hjá Stöð tvö. Það er sem sé tækniklega mögulegt. Skil ekki hvers vegna það er ekki gert. Hef oft og mörgum sinnum nefnt þetta.

  2. Kristján skrifar:

    Mér finnst líka að veðurfréttamenn á RÚV mættu gefa veðrinu í USA meiri gaum. Undanfarin tvö ár hefur vetrarveðrið á austurströndinni skapað mikinn usla og kuldinn náð miklu sunnar en áður þekktist. Þetta hefur vakið litla athygli hjá þeim á RÚV. Mönnum í vesturheimi er tíðrætt um Polar Vortex, ískalt heimskautaloft.

    Í Kaliforníu eru svo endalausir þurrkar sem gera þeim erfitt fyrir.

    Svo mættu þeir gjarnan merkja stærstu borgirnar á veðurkortið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>