«

»

Molar um málfar og miðla 1699

Gaman var að heyra Emil Björnsson, þá fréttamann á fréttastofu útvarpsins, lýsa sólmyrkvanum 1954 austan úr Landeyjum, en það mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi(19.03.2015). Maður hreifst með. Vakti gamlar minningar um yfirmann á fréttastofu Sjónvarpsins og traustan vin. Séra Emil var kröfuharður um málfar, smekkmaður, málvís, einstaklega vel máli farinn. Ræðumaður góður, prestur Óháða safnaðarins um árabil. Flutti jafnan prédikanir blaðalaust. Vinnuþjarkur. Um tíma var hann blaðamaður á Vísi fyrir hádegi. Á fréttastofu útvarpsins frá hádegi og fram að kvöldmat, og prestur um helgar!

Hann gerði miklar kröfur til okkar fréttamanna. Búum held ég öll, sem enn erum á kreiki, að því enn. Það fór engin frétt óyfirlesin til áheyrenda. Hann nestaði okkur vel. Innrætti okkur að umgangast móðurmálið með virðingu. Gott hjá útvarpinu að rifja þetta upp.

 

Jón Gunnarsson segist ekki reka minni til þess, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (18.03.2014). Þetta orðalag heyrist nokkuð oft. Molaskrifari telur að betra hefði verið að orða þetta á annan veg. Kann að vera sérviska, – eins og svo margt  fleira hjá skrifara. Til dæmis: Jón Gunnarsson segir sig ekki reka minni til þess …, eða, – Jón Gunnarsson segist ekki minnast þess ….

 

Skúli Gunnar Vigfússon sendi Molum ábendingu (19.03.2015) undir fyrirsögninni: Fréttabörn mbl.is . Í þessu tilviki er það sögnin að valda ,sem enn einu sinni veldur óvönum fréttaskrifara vandræðum. Í fréttinni á mbl.is stendur: ,,Þú veist ekki hvaða skaða þú hef­ur ollið því skaðinn gæti komið í ljós fyrst eft­ir mörg ár”. Þakka Skúla ábendinguna. það er engin sögn til, sem heitir að olla. Hér er frétt mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/18/stundadi_kynlif_med_nemanda/

 

Skyldi það hafa verið að beiðni Ríkissjónvarpsins, að Færeyingar töluðu við okkur ensku í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (19.01.2015)? Trúi því ekki. Í Morgunútgáfunni í  morgun var rætt við Elís Poulsen í Sandey í Færeyjum.  Hann talar íslensku,- lærði hana m.a. hjá Halldóri Blöndal, seinna ráðherra, – gekk þá í Lindargötuskólann. Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík.

 

 

Meira af mbl.is (18.03.2015): ,,Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu seg­ir að þeir sem leggja á hjóla­stíg­um, eins og sést á meðfylgj­andi ljós­mynd sem barst lög­regl­unni, séu að sýna sam­borg­ur­um sín­um ótil­lits­semi, óhagræði og séu í raun að reka hjólaum­ferð aft­ur út á gang­stétt­ir og göt­ur.”Hér er talað um að sýna ótillitssemi, – betra væri að tala um tillitsleysi, og svo sýnum við ekki öðrum óhagræði, þegar við sýnum tillitsleysi , getum við valdið öðrum óhagræði. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að þetta er afritað, eða klippt og límt, eins og stundum er sagtbeint af vef lögreglunnar. Ekki nægilega vönduð vinnubrögð hjá blaðamanni mbl.is. https://www.facebook.com/logreglan?fref=nf

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>