Tilvitnun í athugasemd á fésbók (19.03.2015): ,,Það er kannski lýsandi fyrir þessa umræðu hér að hún er framkvæmd af gömlum köllum, …”
Umræðan er framkvæmd! Ja, hérna. Og það meira að segja af gömlum köllum! Þeim er líklega bannað að ræða mál og hafa skoðanir. Eða hvað? Það er stundum gaman að lesa snilldina, sem birtist í athugasemdum við færslur á fésbók.
Á föstudagsmorgni (20.03.2015) var okkur sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, að fólk væri að ærast ( af spenningi ) vegna sólmyrkvans,sem þá var skammt undan. Seint verður sagt að hógværð í orðavali einkenni þennan útvarpsþátt.
Meira um sólmyrkvann. Fram kom í fjölmiðlum að ferðaþjónustufólk hefði gagnrýnt og verið með ónot út í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness vegna þess að félagið hefði ekki átt nægar birgðir af myrkvagleraugum! Þetta var fáránlegt. Stjörnuskoðunarfélagið hefur engar skyldur gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum, sem sjálf eiga auðvitað að sjá um sína viðskiptavini. Það er ekki annarra verk. Það má næstum kalla þetta ótrúlega óskammfeilni. Forystumenn Stjörnuskoðunarfélagsins unnu afrek með því að gefa öllum grunnskólabörnum landsins, milli fimmtíu og sextíu þúsund börnum sólmyrkvagleraugu. Snjöll hugmynd. Þeir eiga líka mikið hrós skilið fyrir almenna fræðslu um myrkvann og gott framtak.
Þegar Molaskrifari fór í hinn ágæta Sarp Ríkisútvarpsins til að hlusta á þá Kristin Hallsson og Jón Helgason prófessor flytja 39. Passíusálm, – þá stóð á skjánum: 39 þáttur af 50. Þarna hefði auðvitað átt að standa Passíusálmar, 39. sálmur. Sálmarnir eru 50.
Í Bylgjufréttum á hádegi á laugardag (21.03.2015) sagði fréttaþulur ,, … til vitundar á heilkenninu .. “. Fréttmaður sagði réttilega skömmu síðar: ,, … til vitundar um heilkennið ..”.
Molaskrifara finnst það merkileg frétt, að Útvarp Saga skuli hafa orðið gjaldþrota. Það þarf ekki mikla hlustun ( löng hlustun er skrifara reyndar ekki mjög bærileg, þótt honum sé sagt að oft sé þar bitastætt efni síðdegis) til að komast að raun um að launakostnaður er að líkindum frekar lítill, mikið er um endurflutt efni og auglýsingar eru fyrirferðarmiklar og varla ókeypis. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/18/42_milljona_gjaldthrot_utvarps_sogu_3/
Nýtt fyrirtæki virðist samstundis hafa tekið við rekstrinum af fyrirtækinu, sem lýst var gjaldþrota.
Í fréttinni kemur fram, að ekkert hafi fengist greitt upp í 42,5 milljón króna kröfur í þrotabúið. Molaskrifari var sannfærður um að útvarpsstöðin væri epli berandi fyrirtæki, en svona er það nú stundum.
Es. – Á fimmtudagsmorgni (19.03.2015) kveikti Molaskrifari augnablik á Útvarpi Sögu á ferð í bílnum. Heyrði útvarpsstjórann segja eitthvað á þá leið að pabbi og mamma væru svo upptekin af karríer úti í bæ ( að lítill tími gæfist til að sinna börnum). Fór þá aftur að hlusta á Rondó, Ríkisútvarpsins, (FM 87,7) sem er gulls ígildi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
23/03/2015 at 10:26 (UTC 0)
Lifandi í mínum huga, Kannski er ég bara forn!
Jón skrifar:
23/03/2015 at 08:19 (UTC 0)
„Í fréttinni kemur fram, að ekkert hafi fengist greitt upp í 42,5 milljón króna kröfur í þrotabúið. Molaskrifari var sannfærður um að útvarpsstöðin væri epli berandi fyrirtæki, en svona er það nú stundum.“
Það hautu efllaust fleiri en ég um „epli berandi“. Ef maður gúgglar þá koma upp sárafá dæmi og langflest, ef ekki öll, úr „Old-Icelandic“ orðabókum frá 19. öld. Er þetta „lifandi mál“?