«

»

Molar um málfar og miðla 1701

 

,,Sportaðu nýju lúkki”, sagði í heilsíðuauglýsingu frá Útilífi í Fréttablaðinu sl. föstudag (20.03. 2015). Sumar auglýsingastofur , – og fyrirtæki sýna móðurmálinu oft ótrúlega lítilsvirðingu í auglýsingum.

 

,, Nagl­inn Vig­dís myndi segja: að vera odd­viti fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn í tveim­ur síðustu alþing­is­kosn­ing­um”. Haft eftir Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni á svokölluðu Smartlandi mbl.is (20.03.2015). Ætti að vera í tvennum síðustu alþingiskosningum. Kosningar er fleirtöluorð. Tvennar kosningar, þrennar kosningar. Hvorki þingmaðurinn, né Smartland, sem svo er kallað, eru kunn fyrir vandað málfar.

 

Molaskrifari hefur stundum velt því fyrir sér hvort þeir sem ráða ríkjum á Bylgjunni heyri ekki hve auglýsingar eru þar oft hörmulega illa lesnar. Hrynjandin er óeðlileg og lesturinn hvetur síður en svo til hlustunar hvað þá að hann hvetji til viðskipta! Þetta er reyndar ekki nýtt fyrirbæri á Bylgjunni. Hefur viðgengist ótrúlega lengi. Kannski eru menn bara hættir að heyra.

 

Af mbl.is (20.03.2015): Ný og glæsi­leg slökkvistöð í Mos­fells­bæ var form­lega vígð í dag. Stöðin var opnuð, tekin í notkun. Hún var ekki vígð. Til þess að vígja þarf einhvern sem er vígður, hefur tekið vígslu. Enginn slíkur er sjáanlegur á myndinni,sem birt er með þessari frétt á mbl.is. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/20/nyja_slokkvistodin_vigd/

Þetta var eitt af því fyrsta manni var innrætt við fréttaskrif hér á árum áður. En þykir kannski ekki lengur góð latína, eins og þar stendur. Þetta sama orðalag var einnig notað í fréttum Ríkisútvarps. Að slökkvistöðin hafi verið vígð. Ekki var sagt hver vígði.

 

Hvaða tilgangi þjónaði koníaksdrykkja og subbulegt bjórþamb í Hraðfréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (20.03.22015.)?

Fulltrúi Framsóknarflokks virtist taka þátt í þessu með mikilli ánægju og utanríkisráðherra Framsóknarflokksins lét endurtekið kjánast með sig í þættinum. Enn er spurt gera stjórnmálamenn hvað sem er til að komast á skjáinn í nokkrar sekúndur?

Hér hefur áður verið spurt hvað þessi þáttagerð kosti? Því fæst ekki svarað, en fróðlegt væri að fá svör við því.

Í þessum sama þætti talaði hraðfréttamaðurinn um seint Patrikks daginn, – sem haldinn væri hátíðlegur til að minnast einum af verndardýrlingum … Ríkissjónvarpinu tekst ekki alltaf að velja fólk til þáttastjórnunar, sem er bærilega vel talandi. – Til að minnast eins af verndardýrlingum …. Hefði hraðfréttastjórinn betur sagt.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>