Af dv.is (21.03.2015): ,, …en hún hefur verið ákærð fyrir morð fyrir að hafa ekki stigið inn í til að vernda dóttur sína”. Hér er engu líkara en sá sem þýddi fréttina hafi leitað á náðir þýðingarvélar Google. Þetta er ekki boðlegur texti. Hér hefði til dæmis verið hægt að segja, – gripið í taumana – í stað ambögunnar stigið inn í. Vankunnátta og skortur á verkstjórn, – enginn yfirlestur.
Áskell skrifaði (21.03.2015): ,,Orkuveitan ætti að fá einhvern til að lesa yfir auglýsingar. Í Fréttablaðinu er auglýsing frá OR þar sem fyrirtækið auglýsir eftir „þjónustulunduðum og samskiptafærum rafvirkja„. „Viðkomandi mun verða staðsettur í starfsstöð … á Akranesi.“ Þegar beðið er um samskiptafæran rafvirkja sem verður staðsettur í starfsstöð fær maður nettan hroll.”
Molaskrifari þakkar Áskeli ábendinguna. Þessi auglýsing er óttaleg hörmung. Ekki fyrirtækinu til framdráttar.
Í hádegisíþróttafréttum Ríkisútvarps á sunnudag (22.03.2015) var talað um að sigra göngu. Ekkert betra en að sigra keppni. Sem enn heyrist alltaf öðru hverju.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en í fréttum Ríkisútvarps klukkan 16 00 á mánudag (23.03.2015), að sagt væri að fjölmiðlar í Ísrael gerðu að því skóna, gæfu í skyn, teldu. Molaskrifari er vanur því að sagt sé að gera einhverju skóna , ekki gera að því skóna. Sjá einnig þá ágætu bók Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 767. Nokkuð algengt að heyra misfarið með þetta ágæta orðtak.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (23.03.2015) af kosningum í Frakklandi var talað um stjórnmálaflokk, sem þætti sigursæll í seinni umferð. Hafi þetta verið rétt heyrt þá var þarna ekki notað rétt orð. Nota hefði átt orðið sigurstranglegur, líklegur til að sigra eða farnast vel.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (24.03.2015) var talað um stormana og fjargviðrin ! Það að fjargviðrast hefur ekkert með veðurfar að gera. Fjargviðri er ekki vont veður. Orðabókin segir okkur að sögnin að fjargviðrast, þýði að fjasa, fjölyrða , fjargviðrast yfir einhverju. Það er talsvert um það að fjargviðrast sé í þessum þætti, – þar er of mikið af fjasi, þótt áhugavert efni slæðist þar oft með.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar