«

»

Molar um málfar og miðla 1703

 

Fréttaglöggur vinur Molanna benti skrifara á, að fréttin um flugslysið í Frakklandi þar sem 150 manns fórust, hefði verið frétt númer tvö í kvöldfréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Molaskrifara er jafn hissa og þessi vinur Molanna. Furðulegt fréttamat. Ríkissjónvarpið var með þetta á hreinu og gerði fréttinni fagmannleg skil.

Fyrsta frétt á Stöð tvö þetta kvöld var gömul frétt um unga konu, sem bjargað var giftusamlega undan bíl , en hún hafði misst stjórn á bílnum og hann oltið. Sagt var í fréttinni, að unga konan hefði verið að tala í síma. Það var svo dregið til baka (enda er slíkt lögbrot) og sagt að hún hefði verið að tala við börn sín í aftursætinu. Áður hafði komið fram í fréttum að unga konan hefði ekki verið í bílbelti, enda kastaðist hún út úr bílnum. Hún var heppin að sleppa lifandi.

Molaskrifari ætlar ekki að hafa um það mörg orð hvað hann hugsar, þegar hann bíður við umferðarljós á fjölförnum og hættulegum gatnamótum (til dæmis Miklubraut/Kringlumýrarbraut, Kringlumýrarbraut/Suðurlandsbraut) og sér hvern ökumanninn af öðrum bruna hjá blaðrandi í síma, stundum á 2-3 tonna jeppum, eða þaðan af stærri farartækjum, með hugann við allt annað en aksturinn. (Dýrleiki bílanna veitir ekki undanþágu frá lögum og reglum). Eða fólkið sem ekur í miðreininni á Hafnarfjarðarveginum á 40-50 km hraða niðursokkið í símtal eða sendingu smáskilaboða (já!) og veit ekkert af veröldinni í kring um sig.

Fælingarmáttur löggæslu og sekta vegna símnotkunar í akstri er greinilega enginn – nákvæmlega það sama gildir um að nota ekki stefnuljós.

Hér þarf hugarfarsbreytingu til að auka öryggi í umferðinni og fækka slysum.

 

Nú er búið að gefa málfarspistlum Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins nafn. Málskot skulu þeirra heita. Ágætt nafn. Molaskrifari hvetur fjölmiðlafólk og raunar alla til að hlusta á þessa pistla á þriðjudagsmorgnum. Gott og þarft efni. Mætti þess vegna vera tvisvar í viku.

 

Þegar fulltrúi WOW flugfélagsins segir okkur í fréttum (25.03.2015) að flugfloti flugfélagsins sé sá yngsti á Íslandi, er hann þá ekki að segja okkur að félagið noti nýrri þotur en Icelandair? 6300 þotur af gerðinni Airbus A320 eins og WOW notar ( og eins og sú sem fórst í frönsku Ölpunum) eru í notkun hjá meira en 300 flugfélögum. Þær hefja sig til flugs eða lenda með nokkurra sekúndna millibili víðsvegar í veröldinni. Eru í miklum metum sem traustir farkostir. Það eru Boeing þotur Icelandair ekki síður. Í flugheiminum veit Molaskrifari að Icelandair nýtur trausts og virðingar fyrir viðhald- og eftirlitskerfi með flugflota sínum, sem er talið með því besta sem þekkist. – Vísbendingar eru nú komnar fram, að það hafi ekki verið bilun í tækjabúnaði, sem olli flugslysinu hörmulega í Ölpunum.

 

Prýðileg heimildamynd um þann grimma sjúkdóm Alzheimer var sýnd í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Að öðrum ólöstuðum voru viðtölin við Jón Snædal lækni og Sigtrygg Bragason eftirminnilegust. Þættir á borð við þennan eru ekki mjög dýrir í framleiðslu,- aðeins brot af kostnaði við einn svokallaðan Hraðfréttatíma. Ríkissjónvarpið mætti sýna meira af svona efni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Því miður, Kristján. Lögreglan virðist hreinlega hafa gefist upp, – er enda í fjárhagslegu svelti og hefur lengi verið. Það virðist líka skorta áhuga hjá þeim sem hærra eru settir að sjá til þess að lögum sé framfylgt. Ráðamönnum er bara alveg sama. Þetta er ófremdarástand.

  2. Kristján skrifar:

    “ Fælingarmáttur löggæslu og sekta vegna símnotkunar í akstri er greinilega enginn – nákvæmlega það sama gildir um að nota ekki stefnuljós.“

    Er lögreglan á höfuðborgarsvæðinu búin að gefast upp í þessum málum ? Svo virðist vera. Þegar ég var í Manchester í fyrra, sá ég hvernig lögreglan tók sérstaklega á þessu með skipulögðum hætti. Umferðarlöggæsla í Reykjavík er því miður í molum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>