«

»

Molar um málfar og miðla 1704

Ekki er Molaskrifari sáttur við orðalagið, að eitthvað komi í kjölfarið á einhverju. Of oft heyrist í fréttum, að til dæmis yfirlýsing hafi verið birt í kjölfarið á frétt í dagblaði. Molaskrifari hefði sagt: Yfirlýsingin var birt í kjölfar fréttar í dagblaði. Eitthvað kemur í kjölfar einhvers. Hvað segja lesendur?

 

Ómar benti á þessa frétt á mbl.is (25.03.2015): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/25/clarkson_yrdi_gullkyr_itv/

Hann segir: ,,Fyrirsögnin er hressandi”. Molaskrifari tekur undir. Það má nú segja!

 

Í dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (25.03.2015 og raunar oftar) er talað um tveggja þátta röð. Geta tveir verið röð? Ekki í huga Molaskrifara. Tala hefði átt um tvo þætti um tiltekið efni. Þriggja þátta röð gæti staðist.

 

Á miðvikudagskvöld (25.03. 2015) talaði fréttaþulur í Ríkissjónvarpi um fjárdrátt, það væri að – að draga sér fé. Molaskrifara var kennt að fjárdráttur væri þegar einhver tæki fjármuni, oftast frá fyrirtæki eða sjóði ófrjálsri hendi með leynd, þá drægi sá sér fé, – ekki drægi sér fé. En það orðalag heyrist æ oftar og er ekki nýtt af nálinni.

 

Skyldi fésbókin vera undanþegin íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum? Þar eru áfengisauglýsingar næstum daglegt brauð. Heyrir þetta ekki undir neinn?

https://www.facebook.com/budvar.iceland/photos/a.323699237787979.1073741828.323658487792054/435154933309075/?type=1&fref=nf

 

Þegar miklir atburðir gerast úti í heimi, er ómetanlegt fyrir fréttafíkna, gamla fréttamenn að hafa aðgang að erlendu fréttastöðvunum í Sjónvarpi Símans, BBC World, Aljazeera, CNN, CNBC og Sky, svo nokkrar séu nefndar. Sjónvarpsstöðvarnar okkar sinna erlendum fréttum í mjög takmörkuðum mæli, – þótt Bogi Ágústsson geri sitt besta!

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (25.03.2015) var í fréttum af veðri talað um að él yrði á …. Veðurstofan var ekki að spá einu éli, – verið var að spá éljum, éljagangi.

 

Fréttamat er umdeilanlegt eins og yfirleitt allt mat. Molaskrifara fannst það skrítið fréttamat í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudag (25.03.2015) þegar sagt var frá því stuttum fréttatíma, að einhver leikmaður á Englandi hefði verið dæmdur í þriggja leikja bann.  En Ríkisútvarpið leggur sig í framkróka með að gera þeim hæfis, sem þyrstir í fótboltafréttir. Enginn hópur fær eins góða þjónustu hjá stofnuninni.

 

Iðnnám er in(n), auglýsir Tækniskólinn í útvarpi (25.04.2015). Skyldi ekki vera kennd íslenska í Tækniskólanum? Þetta var auðvitað enskuskotin auglýsing. Átt var við að iðnnám væri í tísku, eða vinsælt um þessar mundir.

 

Ævinlega er gaman að hlusta og horfa þegar Egill Helgason í Kiljunni fjallar um bækur og staði. Bessastaði í vikunni. Hávær píanóleikur, ágætur, reyndar , yfirgnæfði algjörlega flutning á ljóði Þórarins Eldjárns. Gott viðtal – á réttum tíma – við Mörð Árnason um nýja útgáfu Passíusálma. Ástæða til að fagna þeirri útgáfu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    „Geta tveir verið röð?“ Í minni sveit var stundum talað um einn í hóp og tvo í lest. Í því samhengi hefðu tveir tvímælalaust verið röð!

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>