«

»

Molar um málfar og miðla 1705

 

Úr frétt á mbl.is (27.03.2015), – haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélagsins: ,, „Dýpk­un Land­eyj­ar­hafn­ar er ekki á veg­um Eim­skipa­fé­lags­ins og þar af leiðandi höf­um við ekki lif­andi upp­lýs­ing­ar um það hvenær höfn­in verður dýpkuð, held­ur er okk­ur til­kynnt um það ….” Lifandi upplýsingar?   Eru þá til dauðar upplýsingar? Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/27/frettin_var_uppspuni_fra_rotum/

Líklega átti blaðafulltrúinn við nýjustu upplýsingar , þegar hann talaði um lifandi upplýsingar.

 

Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Honum finnst það ósvinna að íþróttadeild Ríkissjónvarpsins skuli troða hálftíma innihaldslausu fótboltafjasi inn í miðja dagskrá á laugardagskvöldi (28.03.2015). Er þetta gert með vitund og vilja útvarpsstjóra? Er meðvitað verið að hrekja þá áhorfendur, sem ekki lifa fyrir fótbolta,  yfir til Stöðvar tvö eða til erlendra stöðva? Hversvegna er ekki hin sérstaka íþróttarás Ríkissjónvarpsins notuð? Til hvers er hún? Úrslit leiksins voru kunn. Þetta raus bætti engu við. Óskiljanlegt.

 

Guðmundur benti á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (27.03.2015). Molaskrifari þakkar áendinguna. http://ruv.is/frett/sagdur-hafa-reynt-ad-brjotast-inn-med-exi

Í fréttinni segir:,, Þýska dagblaðið Bild heldur því fram í dag að flugstjóri þýsku flugvélarinnar sem fórst í Ölpunum á miðvikudag hafi reynt að brjótast inn í flugstjórnarklefann með öx að vopni. Þetta hefur ekki fengist staðfest af opinberum aðilum.

Talsmaður Germanwings sagði í samtali við AFP fréttastofuna að öx væri meðal öryggisbúnaðar um borð í flugvélinni. Í umfjöllun Bild er vísað til heimildarmanna með aðgang að upplýsingum um málið.” Ótrúlegt en satt. Er fólk ekki látið ganga undir próf í íslensku áður en fréttastofan ræður það til starfa? Hér er eitthvað að , – gæðaeftirlitið víðsfjarri. Engin verkstjórn. Enginn les yfir áður en villurnar eru birtar.

Svei mér þá, ef þjóðin var ekki minnt á það í næstum hverjum einasta fréttatíma Ríkisútvarpsins í tvo eða þrjá daga fyrir helgina, að nú ætluðu Íslendingar að fara að spila fótbolta austur í Kasakstan. Og hvað voru margir menn sendir úr Efstaleitinu á staðinn?  Voru einhver vandkvæði á að lýsa leiknum héðan , – nú á tímum tækninnar? Það er ekki spurt um kostnað, þegar íþróttir eiga í hlut í Efstaleiti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    „Og hvað voru margir menn sendir úr Efstaleitinu á staðinn? Voru einhver vandkvæði á að lýsa leiknum héðan , – nú á tímum tækninnar? Það er ekki spurt um kostnað, þegar íþróttir eiga í hlut í Efstaleiti.“

    Sjálfur horfi ég ekki á fótbolta á íslenskum stöðvum einmitt vegna þess að þeir sem lýsa leikjunum sitja alla jafna í stúdíói í Skaftahlíð/Efstaleiti og sjá ekkert meira en ég af vellinum. Ég horfði á byrjun leiksins á laugardag á netinu. Hver stöðin var veit ég ekki en útsendingin var greinilega miðuð við Bandaríkjamarkað og sá sem lýsti var á vellinum. Ég gat svo skipt yfir á RÚV: 1) vegna þess að sá sem lýsti leiknum var á staðnum (vissi hvernig veðrið/andrúmsloftið var þar) og 2) hann öskraði ekki eins og íslenskir íþróttafréttamann gera yfirleitt (arfur frá Ómari Ragnarssyni held ég).
    NRK sýnir vetraríþróttir frá morgni til kvölds á bæði 1 og 2 allan veturinn og frá tveimur ef ekki þremur heimsálfum. Heldur þú að öllu sé lýst úr stúdíói í Ósló?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>