«

»

Molar um málfar og miðla 1706

Úr ummælum á fésbók (28.03.2015): ,,Leiðréttist það hér með ef einhver hafi verið að spá í þessu”.  Aftur og aftur sér maður og heyrir að verið sé að spá í einhverju, spá í þessu. Molaskrifari hefur alltaf talað um og heyrt aðra tala um að spá í eitthvað, – velta einhverju fyrir sér. Og hér er önnur tilvitnun af Stundinni sama dag , ,, ……Þannig að við erum ekkert að spá í því,“ segir Teitur.  Hvað segja Molalesendur um þetta?

 

Gamall skólabróðir og vinur S.O., sem þrátt fyrir  búsetu í öðru landi fylgist vel með íslenskum miðlum, benti  á þetta: ,,Sá þetta mismæli(?) í frétt á Vísi:

,,Okkur þykir þetta afskaplega leitt og hörmum að mæðgurnar hafi þurft að fara í fýluferð,“ segir í svari Auðkennis til Fréttablaðsins.”
Hann spyr:
,,Hver skyldi skipuleggja slíkar ferðir? Er íslenzkur fararstjóri? Eiga menn að taka með sér nesti? Er um dagsferðir eða lengri ferðir að ræða?” Þakka bréfið. Enginn vill fara fýluferð !

 

Í heldur vaxandi mæli hlustar Molaskrifari á þáttinn Í bítið á Bylgjunni í stað Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þetta er þrátt fyrir dygga hlustun á morgunútvarp Ríkisútvarpsins í áratugi. Molaskrifari reynir þó að missa ekki af Málskoti á þriðjudögum og spjalli þeirra Boga og Óðins á fimmtudögum. Í síðasta spjalli nefndi Bogi John Bercow, forseta neðri deildar breska þingsins. Hann er aldeilis bráðskemmtilegur forseti og fundastjórn hans með miklum ágætum. Breski húmorinn á sínum stað. Ömurlegur auglýsingalestur vinnur gegn Bylgjunni. Nefnt áður. Bylgjumenn hljóta að heyra þetta. Er örugglega hægt að laga með réttri talþjálfun.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri vígði ekki vatnsrennibraut við Árbæjarlaug eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö fyrir helgina. Borgarstjórinn er ekki vígður maður og getur hvorki vígt eitt eða neitt. Hann fór hinsvegar fyrstu ferðina niður nýja vatnsrennibraut í sundlaugina í Árbænum. Það er annar handleggur. Svo var okkur sagt í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (30.03.2015) að gámar hefðu verið vígðir við Landspítalann. Ekki var þess getið hver vígði. – Svo er sagt að Torfi Erlendsson nábúi séra Hallgríms Péturssonar hafi sagt er Hallgrímur var vígður til prestsembættis við Hvalsneskirkju: ,, Allan andskotann vígja þeir.”  Er það orðtak síðan.

Þetta er sætur angan, sagði viðmælandi í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (28.03.2015). Angan er kvenkynsorð. Ilmur, sem hefur sömu merkingu, er karlkynsorð. Sæt angan. Sætur ilmur.

Yfirleitt er heldur lítið að græða á viðtölum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkissjónvarps. Bein útsending bætir ekki slakt viðtal. Molaskrifari var  litlu nær eftir viðtal í beinni útsendingu við húsnæðisráðherra Framsóknarflokksins í gærkvöldi (30.03.2015). Ráðherra vék sér fimlega hjá því með orðaflaumi að svara hvað gera ætti til að greiða götu ungs fólks, sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti.  Og komst upp með það. Fréttamaður byrjaði á því að spyrja tveggja spurninga í einu,sem er ekki góður siður.

Á tólfa tímaum í gærkveldi (30.03.2015)heyrði Molaskrifari á tal tveggja eða þriggja kvenna í  endurteknum þætti í Útvarpi Sögu. Þar var sagt: ,,Hvað er  annars að frétta úr Hveragerðar”? Ambagan Hveragerðarbæ, heyrðist tvisvar þá skömmu stund, sem Molaskrifari lagði við hlustir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Mitt fréttauppeldi, kæri Valgeir, var að mestu undir handarjaðri prests sem lagði ríka áherslu á að við notðuðum sögnina að vígja aðeins í eiginlegri, upprunalegri merkingu. Sá klerkur var mikill smekkmaður á íslenskt mál og gerði miklar krögfur til okkar á fréttastofunni. Hef haldið mig við það.

  2. Helgi Ólafsson skrifar:

    „ef einhver hafi verið að spá í þessu“. Er þetta ekki í ætt við „ég fer út að labba ef veðrið sé gott“?

  3. Valgeir Sigurðsson, fyrrv. blaðamaður skrifar:

    Ég er ósammála því að sögnin að „vígja“ eigi eingöngu við helgiathöfn. Móðir mín heitin spurði mig: „Hvenær ætlarðu að vígja nýju fötin þín?“ Og í Orðabók Árna Böðvarssonar er einnig gefin merkingin „nota í fyrsta skipti“, – og minnist einmitt á föt í því sambandi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>