«

»

Molar um málfar og miðla 1716

 

Sumir eiga erfitt með að segja, að þeir voni, að við berum gæfu til að gera eitthvað , – verðum svo gæfusamir að gera hið rétta, að velja rétta leið. Síðast á föstudagsmorgni , í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (24.04. 2014) heyrðu hlustendur brot  úr ræðu þingmanns,sem sagði . ,, að vonandi bæri okkur gæfu til þess …”. Annar þingmaður talaði í sama samklippi ummæla úr þinginu ,,um ríkisstjórn sem sæti á höndunum á sér”. Líklega átt hann við ríkisstjórn,sem sæti auðum höndum. Gerði ekki neitt. Þetta hefst á 1:19:19 eða þar um bil. Sjá: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunutgafan/20150424

Þetta var talið meðal áhugaverðra ummæla úr þinginu í vikunni að sögn umsjónarmanns.

Kannski þarf Alþingi að ráða málfarsráðunaut.

 

Ráðamenn Ríkisútvarpsins hljóta að gera sér grein fyrir því morgunþátturinn Morgunútgáfan sem sendur er út á báðum rásum frá klukkar 06 30 til 09 00 fimm daga vikunnar hefur ekki heppnast vo sem að var stefnt.  Þar með er ekki sagt að umsjónarmönnum geti ekki farist önnur verk ágætlega úr hendi.

Það gildir um Ríkisútvarpið í heild, að umfjöllun um dagskrá og einstaka liði er orðin ansi fyrirferðarmikil. Það er alltaf verið að segja okkur hvað við höfum verið að hlusta á eða hvað við munum heyra. Þarna er kannski mjótt mundangshófið. En þetta er um of. Markalínan milli hreinna auglýsinga og eðlilegra frásagna af atburðum, fyrirhuguðum eða hjáliðnum, eru ekki alltaf nægilega skýr. Þarna skortir verkstjórn og skynsamlegt mat.

Of mikið er um innihaldslaust fjas, froðu. Hverjum kemur við hvort umsjónarmaður þurfti að hreinsa snjó af bílrúðum áður en ekið var í vinnuna?  Í veðurhjali hefur stundum verið gengið út frá því að úti á landi viðri alveg eins og á höfuðborgarsvæðinu. Svo fengum við 10 mínútna íþróttafréttir á mánudagsmorgni (27.04.2015), sem umsjónarmaður þakkaði fyrir og kallaði fínan pakka!

– Það sem Molaskrifari hefur heyrt af Helgarútgáfu Hallgríms Thorst. á sunnudagsmorgnum á Rás tvö er hinsvegar betra. Fróðlegt fuglaspjall og gott viðtal við Ilmi Kristjánsdóttur leikkonu, sl. sunnudag. Þarf þó að leggja oftar við hlustir til að meta þættina, – en þegar heyrt lofar góðu. Hallgrímur kann þetta. Hann ætti að venja sig af enskuslettunum, – sem eru of algengar. Hvimleiðar.

 

,,Vegna mikilla vinda”, var sagt í þýðingu í fréttum Ríkissjónvarpsins á Rás tvö (24.04.2015) í frétt af eldgosi í Suður-Ameríku. Hefði ekki verið nær að tala um hvassviðri?

 

Fleirtalan af orðinu göng, – í merkingunni jarðgöng heldur áfram að vefjast fyrir fréttamönnum. Í inngangi að frétt um Vaðlaheiðargöng í Ríkissjónvarpi (25.04.2015) var sagt: ,,Fjárhagslegt svigrúm Vaðlaheiðargangna h.f. til að takast á við tafir er afar lítið”. Eignarfall af orðinu göng er ganga. Eignarfall flt af orðinu göngur (fjárleitir) er gangna. Gangnamenn, heita þeir sem fara í göngur að hausti til að finna fé á fjöllum. – Þetta hefur verið nefnt svona tíu sinnum í Molum. Reyndar voru fréttir um Vaðlaheiðargöng hnökralausar hvað þetta varðaði í gærkvöldi (27.04.2015).

 

Verslunin lokar klukkan sex á morgun, auglýsti IKEA hvað eftir annað í Ríkisútvarpi og sjónvarpi á föstudag (24.04.2015). Er enginn starfandi á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins ,sem getur lagfært ambögur? Eða treysta menn sér ekki til að hrófla við textum,sem koma frá auglýsingastofum? Sérstakan málfarsráðunaut, yfirlesara,  á auglýsingadeild? Versluninni verður lokað klukkan sex á morgun, hefði þetta átt að vera. Verslun lokar hvorki einu né neinu. Það vita flestir, – þó ekki allir.

 

Tóku þátt á mótinu, sagði íþróttafréttamaður Ríkisvarps (26.04.2015). Tölum við ekki um að taka þátt í mótum? Keppa á móti .Hefði haldið það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Þorvaldur S skrifar:

    Í Heiðarbýlinu eftir Jón Trausta kastar maður fram fyrriparti: „Signor Torfi samanskroppinn/ situr á lúkunum.“
    Sá sem situr á höndunum er kalt og iðjulaus. Svoleiðis sátu menn stundum í minni sveit og þótti fremur athugavert, þó ekki fyrir orðalagið heldur ómennskuna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>